Enski boltinn

Segja að Manchester City ætli að borga 86 milljónir punda fyrir Gvardiol

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Josko Gvardiol hefur leikið í tvö tímabil með þýska félaginu RB Leipzig
Josko Gvardiol hefur leikið í tvö tímabil með þýska félaginu RB Leipzig Getty/Ulrik Pedersen

Fátt virðist ætla að koma í veg fyrir það að króatíski miðvörðurinn Josko Gvardiol verði leikmaður Manchester City á næstu leiktíð. Hann verður líka væntanlega dýrasti varnarmaður sögunnar.

Viðræður Manchester City og þýska liðsins RB Leipzig eru langt komnar og samkvæmt heimildum The Telegraph þá ætlar City að borga 86 milljónir punda fyrir þennan króatíska landsliðsmann eða 14,9 milljarða króna.

Verði að þessum kaupum og fyrir þetta verð þá verður Gvardiol dýrasti varnarmaður sögunnar.

Harry Maguire á það met en Manchester United borgaði Leicester City áttatíu milljónir punda sumarið 2019.

Gvardiol er framtíðarmaður enda aðeins 21 árs gamall. Hann stóð sig mjög vel með króatíska landsliðinu á síðasta HM og hefur verið lykilmaður hjá RB Leipzig.

Þrátt fyrir ungan aldur þá hefur Gvardiol þegar spila 21 landsleik en hann var áður leikmaður Dinamo Zagreb fyrir komu sína til Þýskalands.

Fari þessi sala í gegn þá mun RB Leipzig hafa selt þrjá leikmenn í ensku úrvalsdeildina fyrir 198 milljónir punda. Chelsea hefur þegar keypt framherjann Christopher Nkunku fyrir 52 milljónir og Liverpool gekk í gær frá kaupunum á ungverska miðjumanninum Dominik Szoboszlai fyrir 60 milljónir punda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×