Enski boltinn

Verður fyrsta konan til að stýra ensku atvinnumannaliði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hannah Dingley stýrir Forest Green Rovers í fyrsta sinn í kvöld.
Hannah Dingley stýrir Forest Green Rovers í fyrsta sinn í kvöld.

Forest Green Rovers hefur brotið blað í enskri fótboltasögu með því að ráða konu sem knattspyrnustjóra liðsins.

Duncan Ferguson hætti hjá Forest Green á dögunum eftir sex mánaða starf. Í stað hans réði félagið Hönnuh Dingley.

Hún er fyrsta konan sem er ráðinn stjóri liðs í efstu fjórum deildunum á Englandi. Ráðningin er þó tímabundin til að byrja með.

Dingley er yfirmaður unglingastarfs Forest Green og er með UEFA Pro License þjálfaragráðu.

Forest Green mætir Melksham Town í fyrsta leik sínum á undirbúningstímabilinu í kvöld og þar verður Dingley við stjórnvölinn.

„Ég er mjög spennt. Undirbúningstímabilið er hafið og keppnistímabilið er handan við hornið. Þetta er spennandi tími í fótboltanum og ég er þakklát fyrir tækifærið að stýra svona framsæknu félagi,“ sagði Dingley.

Forest Green féll úr ensku C-deildinni á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×