Reus greindi frá þessari ákvörðun sinni í myndbandi á Twitter-síðu Dortmund.
„Halló, kæru stuðningsmenn. Það er mjög mikilvægt fyrir mig að segja ykkur eitt persónulega: ég hafði góðan tíma í fríinu til að hugsa mig um og hef ákveðið að gefa fyrirliðastöðuna frá mér,“ sagði Reus.
„Ég lét Edin Terzic [knattspyrnustjóra Dortmund] og Sebastian Kehl [íþróttastjóra Dortmund] vita af þessu í gær. Ég gegndi fyrirliðastöðunni í fimm ár með stolti. Takk fyrir stuðninginn í gegnum árin og ég vona að Edin og Sebastian finni góðan eftirmann. Ég er viss um það.“
Reus var gerður að fyrirliða Dortmund 2018. Hann varð bikarmeistari með liðinu fyrir tveimur árum.
Dortmund var hársbreidd frá því að verða þýskur meistari í vor en kastaði möguleikanum á því frá sér í lokaumferðinni. Bayern München vann þess í stað titilinn ellefta árið í röð.
Reus er á leið inn í sitt tólfta tímabil með Dortmund. Hann hefur leikið 387 leiki fyrir félagið og skorað 161 mark.