Í grein The Guardian er greint frá þeim tíu ljósmyndurum sem hljóta tilnefningu til verðlaunanna. Tilnefningarnar voru tilkynntar á Les Rencontres d'Arles ljósmyndahátíðinni í Frakklandi í gær.
Þá kemur fram að á hverju ári sé þema í keppninni sem og að þemað í ár sé Human, eða mennska. Hverjum ljósmyndara sem tilnefndur er fylgir myndasería sem inniheldur tíu ljósmyndir. Myndasería RAX heitir Where the Wolds Is Melting og inniheldur myndir sem teknar eru á Grænlandi, í Síberíu og á Íslandi á árunum 2013 til 2022. Myndasyrpuna í heild sinni má sjá á vef Prix Pricket.

Í samtali við Vísi segir Ragnar tilnefninguna mikinn heiður. „Þetta er ákveðið statement um að maður sé að gera eitthvað af viti,“ segir hann.
Um þessar mundir er Ragnar á ferðalagi um heimskautalöndin þar sem hann tekur myndir fyrir sýningu og bók sem hann vinnur nú að. Markmið verkefnisins er að vekja athygli á heimskautalöndunum í tengslum við loftslagsmál og mismunandi lifnaðarhætti íbúa heimskautalandanna.
„Maður er aldrei að reikna með neinu en við vonum það besta,“segir Ragnar um tilnefninguna.

Tilkynnt verður um sigurvegara Prix Pictet verðlaunanna við athöfn á Victoria and Albert safninu í London í haust. Í kjölfarið verða myndaseríur allra tólf ljósmyndaranna sem tilnefndir voru sýndar á ljósmyndasöfnum víðsvegar um heiminn næstu tvö árin.
RAX á yfir fjörutíu ára feril að baki í faginu og er hvergi nærri hættur. Hann starfaði lengi sem ljósmyndari Morgunblaðsins auk þess sem hann hefur gefið út samtals átta ljósmyndabækur. Ljósmyndir RAX hafa verið birtar í tímaritum á borð við Life, Newsweek, Stern, National geograpic og Time.
Þá hlaut Ragnar fálkaorðu árið 2011 fyrir framlag sitt til ljósmyndunar og umfjöllunar um lífshætti frumbyggja á norðurslóðum.
Í þáttunum RAX augnablik sem sýndir eru á Vísi og Stöð 2 Maraþon segir Ragnar sögurnar á bak við ógleymanlegar ljósmyndir sínar. Þættina má nálgast hér.