Enski boltinn

Verða að fresta fyrsta heimaleiknum sínum í 31 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Inngangurinn frægi inn í stúku gestanna á Kenilworth Road, sem er heimavöllur Luton Town.
Inngangurinn frægi inn í stúku gestanna á Kenilworth Road, sem er heimavöllur Luton Town. Getty/Joe Giddens

Luton Town er komið upp í ensku úrvalsdeildina í fyrsta sinn síðan hún varð að úrvalsdeild árið 1992. Liðið heldur áfram að spila heimaleiki sína á Kenilworth Road en það kallar á breytingar.

Kenilworth Road sló í gegn á samfélagsmiðlum í vor þegar stefndi í að hann myndi hýsa leiki í ensku úrvalsdeildinni. Mesta athygli vakti sú staðreynd að þú þarft að fara inn í raðhús og í gegnum bakgarða til að komast í stúkuna með stuðningsmönnum útiliðsins.

Kenilworth Road hefur verið heimavöllur Luton frá 1905 og hann tekur bara rétt rúmlega tíu þúsund áhorfendur.

Forráðamenn Luton Town gerðu sér samt grein fyrir því að það þurftu að lappa upp á leikvanginn áður en hann hýsti sinn fyrsta úrvalsdeildarleik.

Það þurfti að byggja nýja stúku sem mun meðal annars hafa aðstöðu fyrir sjónvarpsstöðvar og blaðamenn en gamla aðstaðan þótti ekki boðleg fyrir nútíma umföllun. Framkvæmdirnar kostuðu um tíu milljónir punda.

Þær framkvæmdir hafa staðið yfir í sumar en hafa verið viðfangsmeiri en búist var við.

Þetta þýðir að Luton Town varð að fresta fyrsta heimaleiknum sínum í 31 ár sem átti að vera á móti Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum í Burnley 19. ágúst næstkomandi.

Fyrsti leikur Luton verður á útivelli á móti Brighton 12. ágúst en næsti heimaleikur á eftir Burnley leiknum er síðan á móti West Ham 1. september. Ekki er öruggt að sá leikur geti farið fram en forráðamenn Luton eru þó bjartsýnir á að framkvæmdirnar gangi áfram vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×