Í frétt Stöðvar 2 mátti sjá myndir sem teknar voru í Eyjafirði en Erlendur segir steinbít yfirleitt feiminn við mannfólkið og hann forði sér þegar kafari nálgast. Oftast haldi hann sig þó undir steinum eða í holum eða sprungum þar sem hann hefur skjól.
En það er annar svipaður fiskur, sem Erlendur segir að kallist grábítur fyrir austan. Hann sé alltaf til í slag, hræðist ekki kafara og virðist öðruvísi útlits.

Erlendur segist hafa nokkrum sinnum mætt grábítum á ferli sínum sem kafari undanfarin þrjátíu ár, þeir séu minni en venjulegur steinbítur, öðruvísi á litinn, en auðþekkjanlegir og ógnandi.
Honum lék forvitni á að fá svar við þeirri spurningu hvort grábítur væri í raun steinbítur eða sérstök tegund eða steinbíts bróðir. Einfaldast hefði auðvitað verið að veiða hann og rannsakan hann dauðan en Erlendur vildi ekki drepa hann.
Hin leiðin var að afla DNA-sýnis úr lifandi fiski og það var einmitt það sem Erlendur gerði. Fór með sýnatökupinna og athugaði hvort hægt væri að stinga honum upp í grábítinn. Og viti menn; fiskurinn leyfði sýnatökuna.

Núna hefur Matís greint sýnið og er niðurstaðan sú að grábítur kemur út sem steinbítur. Það útiloki þó ekki að hann sé undirtegund, jafmvel sérstakur stofn eða að tegundarmyndun sé í gangi.
En Erlendur vildi líka vita hversu fast hann bítur. Það var því ekkert annað í stöðunni en að prófa. Hvort þetta hafi verið vont svarar Erlendur að hann sé að minnsta kosti ennþá með tíu fingur.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: