Morgunblaðið greindi frá þessu í morgun og segist hafa undir höndunum ráðningarsamning þess efnis sem er undirritaður af Ragnhildi Ásgeirsdóttur, framkvæmdastjóra Biskupsstofu, og Agnesi M. Sigurðardóttur biskup.
Forseti kirkjuþings, Drífa Hjartardóttir, sagði í samtali við Morgunblaðið að það væri undarlegt að undirmaður geti gert ráðningarsamning við yfirmann sinn eins og í þessu tilviki. Þá hafi hvorki kirkjuþing né forsætisnefnd þess vitað af samningnum.
„Ég frétti af tilvist þessa samnings í síðustu viku, ég hafði ekki hugmynd um hann áður. Mér finnst það mjög undarlegt að undirmaður geti gert ráðningarsamning við yfirmann sinn. Við vorum aldrei látin vita af þessu, hvorki forsætisnefnd kirkjuþings né kirkjuþingið sjálft. Þetta kom mér mjög á óvart og er mjög sérstakt,“ sagði Drífa Hjartardóttir í viðtali við Morgunblaðið.
Reglum um skipunartíma biskups breytt
Agnes Sigurðardóttir var skipuð biskup af forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, frá og með 1. júlí 2012 til fimm ára og var skipunartíminn síðan framlengdur um önnur fimm ár 1. júlí 2017.
Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður Gunnars Sigurjónssonar, fyrrverandi sóknarprests í Digraneskirkju sem var látinn fara úr prestakallinu í kjölfar ásakana um einelti og kynferðislega, hefur vakið athygli á skipunartíma Agnesar biskups og hæfi hennar til að taka ákvarðanir.
Kirkjuþing breytti reglum um kosningu biskups í fyrra þannig að kjörtímabil hans er nú sex ár. Í erindi sem Auður sendi á forseta kirkjuþings fyrr á árinu sagði hún að það þýddi ekki að skipunartími biskups framlengdist sjálfkrafa og Agnes hefði því ekki getað tekið ákvörðun um að reka Gunnar.
Með réttu hefði skipunartími biskups átt að renna út 1. júlí 2022 en nú er ljóst að skipunartími hennar rennur ekki út fyrr en 31. október 2024.