Erlent

Fékk sjald­gæft sjónar­spil í af­mælis­gjöf

Máni Snær Þorláksson skrifar
Hvalirnir þrír stukku upp á sama tíma er maðurinn var að fagna afmæli sínu.
Hvalirnir þrír stukku upp á sama tíma er maðurinn var að fagna afmæli sínu. YouTube

Karlmaður frá New Hampshire í Bandaríkjunum var að fagna afmælinu sínu með þremur dætrum sínum þegar hann náði ótrúlegu atviki á myndband. Þrír hvalir stukku á sama tíma upp úr sjónum og virtist vera sem um væri að ræða þaulæft atriði hjá þeim.

„Það var virkilega upplyftandi að sjá þetta. Bara ótrúlegt,“ segir Robert Addie, maðurinn sem náði myndbandinu, í samtali við AP fréttastofuna. Addie og dætur hans voru að fagna 59 ára afmæli hans, sem og heimkomu hans frá Úkraínu þar sem hann vann við hjálparstörf, þegar þau sáu hvalina stökkva.

Addie hefur eytt töluverðum tíma á sjó en hann vann sem veiðimaður í ríkjunum Massachusetts og Alaska í áratugi. Hann segir að á þeim tíma hafi hann séð þúsundir hvala ken aldrei neitt þessu líkt. Þetta sé ekki eitthvað sem hægt er að upplifa oftar en einu sinni á lífsleiðinni.

Þá segist Addie hafa rætt við hvalasérfræðinga um málið. Þeir hafi sagt honum að hvalirnir gætu hafa stokkið til að losa sig við sníkjudýr eða hjálpa meltingunni. Hann er þó með aðra kenningu.

„Mér líður eins og þeir hafi kannski verið að kenna eða þjálfa,“ segir Addie en hann byggir það á því að skömmu eftir að hvalirnir þrír stukku ákvað annar yngri hvalur að gera það einnig.

Hvalasérfræðingarnir hafi þá sagt við Addia hversu sjaldgæft svona lagað er. „Sumir af hvalasérfræðingunum eru búnir að hafa samband við mig, þeir eru allir afbrýðissamir því þeir hafa aldrei séð þetta,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×