Sjá mátti fólk veifa rússneska fánanum og heyra mátti nafn Pútíns Rússlandsforseta hrópað á götum úti, á sama tíma og ókvæðisorð voru höfð uppi um frönsk stjórnvöld, en Níger var eitt sinn frönsk nýlenda. Eldar voru kveiktir við franska sendiráðið en að endingu batt herinn enda á óeirðirnar.
Leiðtogar annarra Afríkuríkja, innan Efnahagsbandalags Vestur-Afríkuríkja, hafa hótað því að grípa til hernaðaraðgerða, láti herforingjastjórnin ekki af völdum innan næstu sjö daga og afhendi forseta landsins Mohamed Bazoum völdin á ný. Leiðtogarnir héldu neyðarfund í Abuja, höfuðborg Nígeríu, í dag þar sem valdaránið var til umræðu.
Í yfirlýsingu þeirra segir að valdaránið verði ekki liðið. Gripið verði til allra tiltækra aðgerða til að koma lýðræðislega kjörinni stjórn til valda á ný.
„Slíkar aðgerðir innihalda valdbeitingu og hershöfðingjar landanna munu hittast við fyrsta tækifæri til að skipuleggja inngrip,“ segir í yfirlýsingu.
Herforingjastjórnin hefur gefið það út að allri mótspyrnu gegn valdaráninu verði mætt af hörku.