Verkefnið, sem ber nafnið Bæjarrými, er úr smiðju þriggja nemenda í landslagsarkitektúr við Landbúnaðarháskóla Íslands. Það er styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og er framhald af rannsóknarverkefni sem unnið var árið 2021 af Önnu Kristínu Guðmundsdóttur landslagsarkitekts sem heitir „Samfélagsmiðlar - Tækifæri fyrir aðdráttarafl svæða.“
Útgangspunktur verkefnisins er að sögn þeirra að styrkja mannlíf og skapa skemmtilega og áhugaverða áningarstaði fyrir íbúa og ferðamenn á Dalvík, Árskógssandi og Hauganesi.

Markmið verkefnisins er að vekja athygli á vannýttum svæðum og rýmum innan þéttbýliskjarnanna í nánu samtali við íbúa. „Þar á meðal með viðhorfskönnun og íbúafundum sem gáfu góða mynd á hvað íbúum finnst aðkallandi og ábótavant í sínu nærumhverfi,“ segir í tilkynningu. Þá hafi til að mynda meirihluta fundist vanta upp á almenningsrými og gróður.
Nemendurnir vekja athygli á því að leitast sé við að nota endurnýtanlegt efni frá fyrirtækjum innan sveitarfélagsins til byggingar á. Þá sé skærbleikur mest áberandi í anda hins mikla Barbie æðis sem nú teygir anga sína víða um heim.
Áhugasamir geta fylgst áfram með verkefninu á Instagram eða á Facebook síðunni Bæjarrými í Dalvíkurbyggð.