Erlent

Vörðu tveimur vikum á stýri flutningaskips

Samúel Karl Ólason skrifar
Mennirnir fjórir vörðu tveimur vikum á stýri flutningaskips og notuðu net til að falla ekki í sjóinn.
Mennirnir fjórir vörðu tveimur vikum á stýri flutningaskips og notuðu net til að falla ekki í sjóinn. Alríkislögregla Brasilíu

Lögregluþjónar í Brasilíu björguðu nýverið fjórum mönnum frá Nígeríu sem vörðu tveimur vikum á stýri flutningaskips. Þeir kláruðu matarbirgðir sínar og vatn á tíunda degi en héldu lífi með því að drekka sjó.

Mennirnir héldu að þeir væru á leið til Evrópu er þeir lögðu af stað í síðasta mánuði en þess í stað ferðuðust þeir 5.600 kílómetra yfir Atlantshafið. Tveir þeirra hafa beðið um hæli í Brasilíu en tveir báðu um að vera fluttir aftur til Nígeríu.

Roman Ebimene Friday og Opemipo Matthew Yeye hafa báðir sótt um hæli í Brasilíu og hafa rætt við fjölmiðla.

Í frétt Guardian er haft eftir Friday, einum mannanna, að hann hafi fengið vin sinn til að róa með sig aftan að flutningaskipi sem var við bryggju í Lagos í Nígeríu. Það hafi þó komið honum á óvart að þrír menn höfðu komið sér fyrir á stýrinu áður en hann gerði það.

Hann hafði aldrei hitt þessa menn áður og sagðist óttast að þeir myndu kasta honum í sjóinn. Mennirnir komu neti fyrir yfir stýrinu og bundu sig við það. Þannig komust þeir hjá því að falla í sjóinn en þeir létu einnig lítið fyrir sér fara af ótta við að áhöfn skipsins myndi finna þá og kasta þeim í sjóinn.

Yeye segir að flóð hafi eyðilagt bú hans fyrr á árinu og því hafi hann reynt að flýja til Evrópu. Hann segir ferðalagið hafa verið gífurlega hættulegt og að hann hafi verið lafandi hræddur allan tímann. Hann vonast nú til þess að fjölskylda hans geti fylgt honum eftir til Brasilíu, fái hann hæli þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×