Lífið

Kannski hlustar einhver ef við hegðum okkur eins og Beyoncé

Íris Hauksdóttir skrifar
b1.jpeg

Hljómsveitin BÖSS gefur á morgun út sína fyrstu smáskífu af væntanlegri plötu sem nefnist Fagnaðarerindi. 

Djasshljómsveitin BÖSS ákvað að hegða sér eins og popphljómsveit og gefa út eitt lag í senn í staðinn fyrir heila plötu.

„Kannski hlustar einhver á þennan djass ef við hegðum okkur eins og Beyoncé," segir Birkir Blær saxófónleikari sveitinnar í samtali við blaðakonu. 

Lagið heitir Hættaðglefsa en fljótlega stefnir hljómsveitin á að gefa út fleiri lög og að lokum plötu - sem og vídeóverk og fleira. „Við ætlum að reyna að gera þetta eins vel og við getum, en þetta er skrítinn djass. Bara það eitt að einn helsti þungarokktrommari landsins, Keli í Agent Fresco spili á trommur. 

Í raun koma allir hljómsveitarmeðlimirnir hver úr sinni áttinni. Einn er kirkjuorganisti, einn rithöfundur og einn djassgítarleikari.“

Stoltir af plötunni

Spurður hvernig sveitin hafi orðið til segir Birkir það hafa í raun verið fyrir hálfgerða slysni. 

„BÖSS varð til fyrir slysni þegar það vantaði hljómsveit til að spila tónleika á Skuggabaldri - djasstónleikastað sem var og hét í miðbæ Reykjavíkur. BÖSS var púslað saman og okkur þótti svo gaman að spila saman að við héldum áfram að gera það.

Við ákváðum að semja lög og það gekk fáránlega vel. Við vorum með regluna: Það er bannað að taka lagasmíðarnar alltof hátíðlega. Við bara smíðum einhver lög og spilum þau saman. Fyrr en varði vorum við komnir með tíu lög og þá bókuðum við stúdíó og tókum plötuna upp á tveimur dögum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×