Erlent

Lést eftir að hafa verið send út í kofa á blæðingum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty

Sextán ára stúlka lést í Nepal á miðvikudag eftir að hafa verið látin dvelja í litlum kofa fyrir utan heimili sitt vegna þess að hún var á blæðingum. Anita Chand lá sofandi í skýlinu þegar snákur beit hana og lést í kjölfarið.

Um er að ræða siðvenju sem hefur sætt mikilli gagnrýni síðustu ár en aðgerðasinnar óttast að hún sé að ryðja sér rúms á ný eftir nokkuð undanahald. Chand er fyrsta stúlkan til að látast sökum „chhaupadi“ frá 2019.

„Chhaupadi“ grundvallast á þeirri trú að stúlkur og konur séu „óhreinar“ og „ósnertanlegar“ á meðan þær hafa blæðingar. Á meðan þeim stendur er þeim óheimilt að gera fjölda hluta og þá hafa margar þeirra mátt þola að vera sendar út í skýli eða kofa og vera þar.

Eftir mikil mótmæli var siðvenjan bönnuð og gerð refsiverð árið 2005. Lögregluyfirvöld segjast hafa dauðsfall Chand til rannsóknar en fjölskylda hennar hefur neitað því að hún hafi verið á blæðingum.

Parwati Budha Rawat, 21 árs, lést árið 2019 eftir að hafa dvalið í þrjár nætur í skýli. Hún var fimmta konan sem lést sökum „chhaupadi“ það árið. Dánarmein þeirra sem hafa látist völdum siðvenjunar eru fjölbreytt, allt frá köfnun til dýraárása.

Dauðsfall Rawat varð til þess að setja af stað öldu mótmæla og þúsundir skýla og kofa voru eyðilögð. Aðgerðasinnar segja vitundarvakninguna hins vegar hafa lognast útaf þegar kórónuveirufaraldurinn fór af stað og að kofarnir séu farnir að rísa á ný.

Þeir segja að stjórnvöld þurfi að gera meira en að dreifa tíðarvörum til stúlkna og kvenna, ekki síst að framfylgja lögunum sem banna útskúfun þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×