Erlent

Tugir látnir og tug­milljarða tjón í flóðunum í Norður-Kína

Kjartan Kjartansson skrifar
Kona heldur á tveimur hundum sínum á meðan á brottflutningi íbúa í Zhouzhou í Hebei-héraði stóð í síðustu viku.
Kona heldur á tveimur hundum sínum á meðan á brottflutningi íbúa í Zhouzhou í Hebei-héraði stóð í síðustu viku. AP/Andy Wong

Yfirvöld í Hebei-héraði í norðanverðu Kína segja að í það minnsta 29 hafi farist í miklum flóðum sem leifar fellibyljarins Doksuri báru með sér. Efnahagslegt tjón af hamförunum hlaupi á tugum milljarða dollara.

Björgunarlið leitar enn að sextán manns sem er saknað eftir flóðin í síðustu viku. Áætlað er að 3,9 milljónir manna hafi orðið fyrir áhrifum af flóðunum, um fimm prósent íbúa héraðsins. Fleiri en 1,75 milljónir manna þurftu að yfirgefa heimili sín. Fleiri en 40.000 hús hafi hrunið og 155.000 til viðbótar orðið fyrir alvarlegum skemmdum.

Talið er að endurbyggingin eftir hamfarirnar eigi eftir að taka tvö ár. Efnahagslega tapið er metið á 13,2 milljarða dollara, jafnvirði meira en 1.700 milljarða íslenskra króna.

Í Beijing fórust 33 í floðunum. Þar gerði mestu úrkomu í að minnsta kosti 140 ár. Allt að þrjú ár gæti tekið að koma innviðum sem fóru úr skorðum öllum aftur í gagnið, að sögn AP-fréttastofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×