Slökkviliðsmenn á eyjunni vinna nú hörðum höndum að því að tryggja að eldurinn dreifi sér ekki lengra í norðurátt.
Svæðið sem hefur orðið fyrir barðinu á gróðureldunum er um 22 kílómetrar að ummáli. Bæirnir Arafo og Candelaria hafa orðið verst úti auk ákveðinna hluta Söntu Úrsúlu og La Victoria.
Fernando Clavijo, forseti Kanaríeyja, sagði á blaðamannafundi í gærkvöldi „Útlitið er ekki beint gott. Raunveruleikinn er sá að við höfum ekki náð markmiðum okkar þrátt fyrir slökkvistarf úr lofti.“
Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir af gróðureldunum á eyjunni.
Næstu dagar mjög mikilvægir
Slökkvistarf gengur sérstaklega illa vegna umhverfisins sem er hrjóstrugt og óaðgengilegt. Slökkviliðsmenn hafa lagt sérstakt kapp á að eldurinn nái ekki til byggða.
Sveitarstjóri Candelaria, María Concepción Brito, segir aðstæður vegna gróðureldanna flóknar. Hitinn sé slíkur á ákveðnum stöðum að ekki er hægt að sinna slökkvistarfi af því vatnið gufar jafnóðum upp.

Næstu dagar munu reynast gríðarmikilvægir af því að á sunnudaginn á hitinn aftur að hækka töluvert og rakastig að lækka. Það muni hafa slæm áhrif á slökkvistarf.
Í nótt unnu 200 slökkviliðsmenn á landi við slökkvistarf að sögn Clavijo og klukkan hálf níu að staðartíma í dag þá hefst slökkvistarf úr lofti. Sextán þyrlur vinna að slökkvistarfi í dag, tveimur fleiri en í gær með tilkomu nýrra þyrla.
Clavijo hefur biðlað til almennra borgara að hjálpa eins og þeir geta íbúum sem hafa verið brottfluttir vegna eldanna. Í heildina hafa 150 manns þurft að yfirgefa heimili sín en aðeins fjórir hafa þurft á aðstoð í björgunarmiðstöðvum Arafo og Candelaria.
Footage from Tenerife, the Canary Islands, #Spain where devastating wildfire continues to get out of control#wildfireupdate pic.twitter.com/lWjY47i3YR
— Attentive Media (@AttentiveCEE) August 17, 2023