Erlent

Búa sig undir flóð og „sögu­lega mikla“ rigningu vegna Hilary

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Íbúar í San Bernardino í Kaliforníu undirbúa sig undir komu Hilary með því að safna sandi í poka til að nýta í flóðavarnir.
Íbúar í San Bernardino í Kaliforníu undirbúa sig undir komu Hilary með því að safna sandi í poka til að nýta í flóðavarnir. Vísir/AP

Yfir­völd í Mexíkó og í Banda­ríkjunum búa sig nú undir komu felli­bylsins Hilary en því mun fylgja gríðar­leg rigning og búa yfir­völd í Kali­forníu­ríki sig undir mikil flóð vegna veður­ofsans sem óttast er að geti valdið mann­skaða.

Í um­fjöllun Guar­dian kemur fram að felli­bylurinn sé nú skammt frá vestur­strönd Banda­ríkjanna og Mexíkó. Búist er við því að veður­ofsinn fari minnkandi á næstu dögum og verði orðinn að hita­beltis­stormi þegar hann fer yfir suður­hluta Kali­forníu­ríkis.

Ef af verður er um að ræða fyrsta hita­beltis­storminn sem fer yfir Kali­forníu í 84 ár. Hafa yfir­völd í Banda­ríkjunum á­hyggjur af þeirri gríðar­legu rigningu sem fylgja mun veðrinu og flóðum sem munu fylgja.

Yfir­völd í Mexíkó hafa þegar gert ráð­stafanir vegna komu Hilary og meðal annars boðað lokun skóla næstu daga. Haft er eftir Mont­serrat Ca­ballero Ramí­rez, borgar­stjóra Tíjúana borgar þar sem búa yfir 1,9 milljónir manna, að opnaðar verði í hið minnsta fjórar fjölda­hjálpar­stöðvar í borginni á meðan veðrið ríður yfir.

Í um­fjöllun Guar­dian kemur fram að yfir­völd í suður­hluta Kali­forníu­ríkis hafi á meðan róið að því öllum árum að koma heimilis­lausu fólki í skjól áður en veðrið ríður yfir. Þá hefur Joe Biden, Banda­ríkja­for­seti, sagt ríkis­stjórnina fylgjast með málum vegna veðursins.

Haft er eftir Janice Hahn, for­manni við­bragðs­nefndar á vegum Los Angeles sýslu að enginn hafi búist við því að þurfa nokkurn tímann að þurfa að undir­búa sig undir slíkt veður. Verið sé að vinna að því að að­stoða íbúa við að undir­búa sig fyrir veðrið, meðal annars með því að út­deila sand­pokum til flóð­varna.

Þá er haft eftir Kristen Cor­bosi­ero, loft­lags­vísinda­manni á vegum Albany há­skóla að ef rigni eins mikið og búist sé við, sé það sögu­legt met. Búist er við um sex sentí­metra rigningu. „Slíkt hefur aldrei áður gerst í suður­hluta Kali­forníu,“ segir Kristen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×