Innlent

Svan­dís svarar um­boðs­manni: Ekki unnt að ná mark­miðum með öðru en frestun

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra. Vísir/Vilhelm

Svan­dís Svavars­dóttir, mat­væla­ráð­herra, hefur svarað bréfi um­boðs­manns Al­þingis þar sem óskað er eftir svörum vegna á­kvörðunar ráð­herra um að banna hval­veiðar tíma­bundið. Í svörunum segir meðal annars að ekki hafi verið talið unnt að ná mark­miðum um dýra­vel­ferð með öðrum hætti en frestun upp­hafs veiði­tíma­bils.

Eins og Vísir greindi frá sendi um­boðs­maður Al­þingis Svan­dísi bréf í lok júlí. Þar óskaði hann eftir svörum um reglu­gerð ráð­herra auk þess sem hann krafðist svara við ýmsum spurningum um á­kvörðun Svan­dísar, meðal annars hvort reglu­gerðin hafi byggt á sjónar­miðum um vel­ferð dýra, sem um gildi sér­stök lög.

Veiðar gætu ekki farið fram að óbreyttu

Í svar­bréfi ráðu­neytisins kemur fram að upp­hafi veiði­tíma­bils við veiðar á lang­reyðum hafi verið frestað til þess að fram­fylgja lögum um hval­veiðar, en að baki þeim lögum búa meðal annars sjónar­mið um vel­ferð dýra.

Það hafi verið mat ráðu­neytisins, Mat­væla­stofnunar og fagráðs um vel­ferð dýra að niður­stöður úr eftir­liti með veiðum á árinu 2022 bentu til þess að nú­verandi veiði­að­ferðir, þar með talinn veiði­búnaður, væru háðar ann­mörkum þess eðlis að veiðar gætu að ó­breyttu ekki farið fram í sam­ræmi við þær kröfur sem leiða af lögum um hval­veiðar og lögum um vel­ferð dýra.

„Frestun á upp­hafi veiði­tíma­bilsins er bráða­birgða­ráð­stöfun sem ætlaður er skammur gildis­tími til að bregðast við þeim al­menna vanda sem upp var kominn varðandi dýra­vel­ferð við hval­veiðar. Ekki var talið að unnt væri að ná framan­greindum mark­miðum með öðru og vægara móti en með frestun upp­hafs veiði­tíma­bils, sem byggir á skýrum laga­legum grund­velli,“ segir meðal annars í saman­tekt á svörum ráðu­neytisins.

„Mat var lagt á þá röskun hags­muna sem frestun á upp­hafi veiði­tíma­bilsins væri til þess fallin að hafa í för með sér með sama hætti og endra­nær þegar tekin er af­staða til breytinga á reglum um veiðar.“

Mat á úr­bótum vegna veiða að vænta fljót­lega

Til grund­vallar því mati hafi ráðu­neytið lagt al­mennar for­sendur um þýðingu lengdar veiði­tíma­bils fyrir hags­muni þeirra sem veiðarnar stunda og al­mennar upp­lýsingar sem fyrir liggi hjá ráðu­neytinu um veiðarnar.

„Þótt mikil­vægir, fjár­hags­legir hags­munir geti verið tengdir veiðum á lang­reyðum verður engu að síður að gæta þess að lang­reyðar séu ekki veiddar eða af­lífaðar með ó­mann­úð­legum hætti, enda eru þær skyni gæddar verur sem ber að vernda fyrir ó­þarfa lim­lestingum og kvölum lögum sam­kvæmt.“

Frá því að ráðu­neytinu hafi borist eftir­lits­skýrsla Mat­væla­stofnunar í maí 2023, hafi það haft til skoðunar hvort og þá hvaða úr­bætur sé unnt að gera á veiði­að­ferðum, þar með talið veiði­búnaði, sem notaðar eru til að tryggja vel­ferð dýranna við af­lífun.

Starfs­hópur ráðu­neytisins, Mat­væla­stofnun og Fiski­stofu vinnur að því að af­marka og leggja sér­fræði­legt mat á þær leiðir sem eru til úr­bóta á að­ferðum við veiðar á lang­reyðum í sam­ráði við inn­lenda og er­lenda sér­fræðinga. Niður­stöðu þeirrar vinnu er að vænta fljót­lega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×