Enski boltinn

Fiorentina neitar láns­til­boði Man United í Amra­bat

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sofyan Amrabat vill komast til Man United en enska félagið er ekki tilbúið að eyða of miklu.
Sofyan Amrabat vill komast til Man United en enska félagið er ekki tilbúið að eyða of miklu. Gabriele Maltinti/Getty Images

Enska knattspyrnuliðið Manchester United þarf nauðsynlega að bæta við sig leikmönnum áður en félagaskiptaglugginn í Englandi. Félagið virðist ekki hafa mikið fjármagn á milli handanna og nú hefur lánstilboði þess í miðjumanninn Sofyan Amrabat verið hafnað.

Hinn 27 ára gamli Amrabat hefur verið skotmark Man United í allt sumar. Um er að ræða djúpan miðjumann sem spilar í dag með Fiorentina á Ítalíu en hefur áður spilað í Holland og Belgíu. Þá á hann að baki 49 A-landsleiki fyrir Marokkó.

Þrátt fyrir að orðrómar hafi verið á kreiki um áhuga Man United á leikmanninum í allt sumar þá hefur aldrei heyrst af tilboði, það er fyrr en nú. Um er að ræða lánstilboð með möguleika á kaupum næsta sumar.

Tilboðið hljóðaði svo að Man United myndi borga eina milljón evra nú og aðra eftir áramót. Félagið gæti þó rift lánssamningnum í janúar og því væri Fiorentina aðeins öruggt með eina milljón evra. Það taldi ítalska félagið óásættanlegt og ákvað að neita tilboðinu.

Fiorentina hefur sett 35 milljón evra (5 milljarða íslenskra króna) verðmiða á leikmanninn. Talið er líklegt að félögin haldi áfram að ræða sín á milli en félagaskiptaglugginn á Englandi lokar þann 1. september næstkomandi og tíminn því naumur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×