Gular viðvaranir fyrir landið sunnan- og vestanvert auk miðhálendisins taka gildi frá klukkan 21:00 annað kvöld. Spáð er sauðaustan hvassviðri eða stormi og rigningu.
Um hálftíma áður en fyrstu viðvaranirnar taka gildi verður flóð á suðvestanverðu landinu. Það verður stærsta útreiknaða stórstreymisflóð ársins samkvæmt viðvörun sem Landhelgisgæslan gaf út í morgun. Því megi gera ráð fyrir nokkuð þungri öldu og áhlaðanda með suður- og vesturströndinni sem geri sjávarhæð mögulega hærri en útreikningar gefa til kynna.
Hvatti Gæslan til aðgæslu við sjávarsíðuna og að eigendur skipa og báta í höfnum huguðu að þeim áður en flóðið og veðrið brestur á.

Gætir helst við á sunnanverðu Reykjanesi
Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að þegar flóð, mikill vindur og lægð þetta nálægt landi leggist á eitt hafi það áhrif á sjávarhæð. Hún verði hærri fyrir vikið.
Þó að versta veðrið verði ekki byrjað á flóði annað kvöld sé lægðin farin að nálgast. Þá geti áhlaðandi orðið þokkalega mikill.
„Menn þurfa bara að vera vakandi fyrir því að sjávarstaðan sé kannski í hærri kantinum. Sumar bryggjur hafa farið upp undir dekkið þannig að það getur flotið upp einhvers staðar. Eins líka ef vindur stendur þannig beint upp á land getur það ýtt grjóti upp á garða og vegi sem liggja nálægt sjó,“ segir Óli Þór.
Byggð við Faxaflóa og Vestmannaeyjar ætti að vera ágætlega varin í suðaustanáttinni. Áhrifanna af sjávarstöðunni gæti helst gætt á sunnanverðu Reykjanesi, til dæmis Grindavík.
Þrátt fyrir að lægðin gangi tiltölulega hratt yfir landið má reikna með leiðinlegu veðri áfram um helgina. Óli Þór segir að ágætlega hvasst verði og þokkalega kröftugar skúrir.
„Það verður alveg hressilegt veður alla helgina,“ segir hann.