„Ég ætlaði alltaf að verða myndlistarmaður. Fyrst og fremst vegna þess að ég gat ekki ímyndað mér að ég gæti orðið leikari. Ég hafði ekki margar fyrirmyndir á Ólafsfirði, þar sem ég ólst upp, sem menntuðu sig og störfuðu sem listamenn en ég er ótrúlega þakklátur þeim kennurum sem voru yfir skapandi greinum í minni grunnskólagöngu, þar á ég í raun og veru mínar einu jákvæðu minningar þar sem ég fékk hrós og styrkingu,“ segir Kolbeinn.
Hann heldur einkasýningu á verkum sínum í Gallerý Núllinu næstu helgi sem ber heitið Aðeins dýpri skilningur.

Spurður hvernig listformin passi saman segist Kolbeinn taka listrænar skorpur jafnt og þétt yfir árið.
„Ég vinn hratt og lengi í senn en tímabilin spanna einhverjar vikur eða mánuði, þetta er svolítið eins og árstíðir. Tek mánuði í skrif, mánuði í að mála og þess á milli er ég að leika og lesa hljóðbækur,“ segir Kolbeinn sem hefur málað í yfir tuttugu ár.
Heltekinn frá fyrstu æfingu
„Sem týpískur ógreindur ADHD einstaklingur fór ég að vinna í fiski eftir 10. bekk og hélt að ég ætti ekkert erindi í frekara nám. Þegar ég komst síðan að því 17 ára gamall að það væri hægt að læra myndlist í menntaskóla opnaðist spennandi veruleiki fyrir mér,“ segir Kolbeinn sem skráði sig í kjölfarið í myndlist við Verkmenntaskólanum á Akureyri.
„Eftir skólann flyt ég til Reykjavíkur að vinna á leikskóla og í umsókn minni til að komast að við Myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Í millitíðinni slysast ég inn á inntökudaga stúdentaleikhússins þar sem Víkingur Kristjánsson og Björn Hlynur Haraldsson voru að leiðbeina og leikstýra nemendum. Eftir fyrstu æfingu og nokkra tíma í spunaleik var ég heltekinn,“ segir Kolbeinn og bætir við:
„Það var ekki aftur snúið“
Persónuleg barátta
Að sögn Kolbeins nýtir hann myndlistina til að sleppa af sér beislinu og leyfa kaótíkinni og hröðu hugsununum að streyma út.
„Ég er í stöðugri baráttu við sjálfan mig á meðan ég er að mála sem verður samtímis ákveðinn lærdómur og persónulegt ferðalag. Stundum leikur allt í höndunum á manni en aðra daga bölvuð glíma,“ segir hann.
Kolbeinn segist vera í stöðugri leit að jafnvægi þegar hann er að mála.
„Á ég að halda aftur af mér eða sleppa tökunum? Er þetta rétta leiðin, rétta formið, rétti liturinn? Þetta er æfing í að treysta sjálfum mér og í þessari seríu var ég mikið að vanda mig og minna mig á að það væri ekkert sem héti mistök eða röng leið. Oft á tíðum fór ég viljandi þá leið að ögra í litavali og formum, villingurinn sem ég er,“segir Kolbeinn.
Hann segist nær eingöngu mála í abstrakt expressioniskum stíl og hafi alltaf gert.
„Hvert verk er ansi lengi í bígerð og umferðirnar eru fjölmargar. Það er ekki óalgengt að myndirnar taki algjörum stakkaskiptum 2-3 sinnum áður en þær eru tilbúnar.“
Næsta sýning Kolbeins verður fyrir norðan í Gallerí Kaktus á Akureyri í lok nóvember.
Nánari upplýsingar um sýningar Kolbeins má nálgast á Instagram síðu hans.