Tvö dýr höfðu verið drepin í gærdag en Morgunblaðið greinir frá því að Hvalur 9 hafi náð öðru dýri í gærkvöldi. Þar er haft eftir stöðvarstjóranum í hvalstöðinni að veiðarnar hafi gengið nokkuð vel þrátt fyrir aðstæður en blindaþoka og leiðindaveður var á svæðinu. Hann segir ennfremur ólíklegt að skipin fari aftur út á næstunni vegna óhagstæðra veðurskilyrða.
Dýraverndunarsamtökin Paul Watson Foundation sendu fréttastofu myndir af því þegar hvalirnir voru dregnir á land í hvalstöðinni í Hvalfirði snemma í morgun. Imogen Sawyer, talskona samtakanna segir að á myndunum megi augljóslega sjá að eitt dýrið hið minnsta hafi verið skotið tvisvar sinnum með hvalskutli. Einn skutullinn virðist hafa hafnað fyrir ofan kjaft dýrsins og hinn í síðu þess.
Samtökin segja þetta þetta augljóst brot á dýraverndarlögunum en í nýrri reglugerð um veiðar á langreyðum sem Svandís Svavarsdóttir setti áður en veiðar voru heimilaðar að nýju segir að ávallt skuli stefnt að því að dýr aflífist samstundis. Að mati samtakanna er ómögulegt að það hafi tekist í þessu tilfelli þar sem það taki rúmar 120 sekúndur að hlaða skutulbyssuna og skjóta á ný.
Þetta vinnulag samræmist ekki íslenskum lögum um velferð dýra að mati samtakanna.