Martin snéri aftur á völlinn í mars á þessu ári eftir að hafa verið frá keppni í tæpt ár vegna krossbandsslita. Hann virtist vera kominn á góðan stað í bataferlinu, en nú þarf að fjarlægja brjósk úr sama hné og hann sleit krossband í á síðasta ári.
Bakslag virðist því vera komið í batann, en Martin hefur ekki æft með Valencia undanfarna daga. Þá tók hann ekki þátt í tveimur æfingaleikjum liðsins um liðna helgi.
Valencia greinir frá yfirvofandi aðgerð Martins á heimasíðu sinni, en þar kemur fram að tilkynnt verði um hversu lengi Martin verði frá keppni að aðgerðinni lokinni.
Martin slær þó á létta strengi á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, og segir að góðu fréttirnar séu þær að nú fái aðdáendur liðsins loksins að sjá hann troða á ný.