Erlent

Eiginkona El Chapo laus úr steininum

Samúel Karl Ólason skrifar
Emma Coronel Aispuro á að verja næstu fjórum árum í Kaliforníu á skilorði.
Emma Coronel Aispuro á að verja næstu fjórum árum í Kaliforníu á skilorði. AP/Alexandria Adult Detention Center

Emma Coronel Aispuro, eiginkona mexíkóska fíkniefnabarónsins víðfræga, Joaquín Guzmán, eða El Chapo, er laus úr fangelsi í Bandaríkjunum. Hún lauk afplánun þriggja ára fangelsisdóms eftir að hún játaði þrjú brot árið 2021 sem sneru að því að hún hefði hjálpað eiginmanni sínum að reka glæpaveldi hans.

Það var liður í samkomulagi við alríkissaksóknara en Dómurinn var styttur og henni var því sleppt í dag. Aispuro mun nú verja næstu fjórum árum í Kaliforníu á skilorði, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Aispuro hjálpaði eiginmanni sínum einnig að flýja úr fanglesi í Mexíkó árið 2015 með því að smygla til hans úri með GPS. Þannig gátu samverkamenn hans grafið löng göng til hans sem El Chapo notaði til að flýja úr fangelsinu.

Göngin voru mjög löng og loftræst. El Chapo notaði mótorhjól á teinum til að keyra í gegnum göngin þegar hann flúði.

El Chapo leiddi Sinaloa-samtökin um árabil en hann var handtekinn aftur árið 2016, framseldur til Bandaríkjanna, og dæmdur í rúmlega tuttugu ára fangelsi árið 2019. Hann afplánar í víggirtu fangelsi í Colorado.

Sjá einnig: El Chapo líklegast sendur í „hátækniútgáfu af helvíti“

Hann fór þó fram á það við fangelsismálayfirvöld í síðasta mánuði að Aispuro og tvær dætur þeirra mættu heimsækja hann í fangelsi.

Kynntust þegar hún var sautján ára

Í frétt BBC segir að Aispuro, sem er 34 ára gömul hafi fyrst hitt El Chapo þegar hún var sautján ára og að keppa í fegurðarsamkeppni. Faðir hennar, var háttsettur meðlimur í Sinaloa samtökunum en situr nú í fangelsi í Mexíkó.

Aispuro giftist El Chapo þegar hún var átján ára gömul en árið 2011 eignuðust þau tvíbura, tvær dætur, og fór Aispuro til Kaliforníu til að fæða börnin, svo þær eru með bandarískan ríkisborgararétt.


Tengdar fréttir

Ráð­herra þáði hundruð milljóna frá eitur­lyfja­hring

Genaro García Luna, fyrrverandi öryggismálaráðherra Mexíkó, var í gær sakfelldur fyrir dómi í Bandaríkjunum fyrir að hafa þegið milljónir dollara í mútur frá mexíkóska eiturlyfjahringnum Sinaloa. Hann mun dvelja í fangelsi að minnsta kosti næstu tuttugu árin. 

Eiginkona „þess stutta“ dæmd í þriggja ára fangelsi

Emma Coronel Aispuro, eiginkona mexíkóska fíkniefnajöfursins Joaquín „þess stutta“ Guzmán var dæmd í þriggja ára fangelsi í Bandaríkjunum í dag. Hún játaði sig seka um að hafa aðstoðað Sinaloa-fíkniefnahringinn alræmda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×