Innlent

Vís­bendingar um of­beldi innan Sin­fóníu­hljóm­sveitarinnar

Jón Þór Stefánsson skrifar
Í skýrslunni er fjallað um einelti, ofbeldi, vanvirðingu og kynþáttafordóma innan sveitarinnar. Myndin er úr safni.
Í skýrslunni er fjallað um einelti, ofbeldi, vanvirðingu og kynþáttafordóma innan sveitarinnar. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Íslands er að finna vísbendingar um einelti og ofbeldi innan sveitarinnar.

Í upphafi árs óskaði stjórn Sinfóníunnar eftir því að Ríkisendurskoðun myndi gera úttekt á starfsemi hljómsveitarinnar. Sú úttekt birtist í dag.

Þar segir meðal annars að samkvæmt upplýsingum úr starfsmannakönnun hafi vinnustaðamenning innan Sinfóníunnar veikst undanfarin ár. Þar spili inn í nokkur erfið starfsmannamál.

Kannanirnar hafi sýnt fram á aukna óánægju með starfsaðstæður og laun. Og þá séu vísbendingar um aukið álag, einelti og ofbeldi sem vinna þurfi bug á. Jafnframt er minnst á að starfsfólk hafi upplifað vanvirðingu og kynþáttafordóma.

Í skýrslunni kemur fram að almennt megi segja að meiri tortryggni ríki gagnvart stjórnendum meðal hljóðfæraleikara heldur en hjá starfsfólki á skrifstofu.

Stjórn og framkvæmdastjórn hljómsveitarinnar hefur brugðist við með því að endurskoða feril um viðbrögð við einelti og ofbeldi. Ríkisendurskoðun segir að halda þurfi því áfram.

Erfiður rekstur

Farið er yfir víðara svið í skýrslunni. Þar er bent á að rekstur Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafi verið erfiður undanfarin ár. Til að mynda hafi heimfaraldurinn haft áhrif á aðsókn.

Hlutfall sértekna af heildartekjum hafi fallið úr um 22 prósentum í um tíu prósent á síðustu tveimur árum. Á sama tíma hefur rekstrarkostnaður farið hækkandi á meðan fjárveitingar standa í stað.

Ríkisendurskoðun segir mikilvægt að auka aðsókn, fjölga tónleikagestum og setja fram skýra aðgerðaráætlun í því sambandi. Þá þurfi að endurmeta stefnu og rekstrarumhverfi sveitarinnar til framtíðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×