Samkvæmt upplýsingum frá Kreml bað Pútín Troshev um að hafa umsjón með sveitum sjálfboðaliða á vígvellinum í Úkraínu. Forsetinn sagði um að ræða sveitir með fjölbreytta getu.
„Þú veist hvaða mál þarf að leysa fyrirfram þannig að bardagagetan verði eins mikil og mögulegt er,“ á Pútín að hafa sagt við Troshev.
Eins og kunnugt er lést Yevgeny Prigozhin, stofnandi og stjórnandi Wagner, í flugslysi í ágúst. Hann hafði áður leitt Wagner-liða í átt að Moskvu og hótað uppreisn.
Pútín hefur hvatt alla liðsmenn Wagner og aðra sjálfstæða hernaðarverktaka til að sverja Rússlandi hollustueið.
Troshev er einnig þekktur undir dulnefninu Sedoi, sem þýðir „sá með grátt hár“. Hann hlaut heiðursorðu í Rússlandi fyrir stuðning sinn við stjórnarher Sýrlands árin 2015 og 2016.