Körfubolti

„Get nú ekki sagt það að maður sé að verða ríkur“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Davíð Tómas Tómasson fór yfir sviðið með Stefáni Árna Pálssyni.
Davíð Tómas Tómasson fór yfir sviðið með Stefáni Árna Pálssyni. VÍSIR/VILHELM

Stefán Árni Pálsson, stjórnandi Körfuboltakvölds, fór og hitti körfuboltadómarann Davíð Tómas Tómasson, Dabba T, í síðasta þætti og ræddi um nýhafið tímabil í Subway-deild karla.

Subway-deild karla hófst formlega í vikunni og síðasta leik fyrstu umferðar lauk í kvöld þegar Íslandsmeistarar Tindastóls unnu nauman sigur gegn nýliðum Álftaness.

Í fyrsta þætti Körfuboltakvölds eftir að tímabilið hófst, sem var á dagskrá á föstudaginn, hitti Stefán Árni hann Dabba T og fór yfir komandi vikur og mánuði í Subway-deildinni.

„Ég er bara alveg ofboðslega spenntur. Ég var að dæma hjá stelpunum í gær og í síðustu viku og það var bara ótrúlega gaman, en svo er ég auðvitað búinn að vera að dæma líka í allt sumar. Ég var erlendis í allt sumar að dæma og er uppfullur af eldmóð og spennu þaðan,“ sagði Davíð.

Íslenskir körfuboltadómarar voru heldur betur í sviðsljósinu stuttu fyrir mót þegar þeir sögðust ekki ætla að dæma leiki í fullorðinsflokki fyrr en KKÍ myndi endurskoða og betrumbæta samninginn við KKDÍ, Körfuknattleiksdómarafélag Íslands. Samningar náðust stuttu fyrir tímabil og Davíð segir það klárlega bæta stöðu dómara á Íslandi.

„Ég get nú ekki sagt að maður sé að verða ríkur. En auðvitað er þetta líka bara til að búa til áhuga á dómgæslu, til að vera áhugahvetjandi fyrir nýja menn sem vilja koma inn og að gera dómgæsluna stóran part af sínu lífi,“ bætti Davíð við.

Þeir Davíð og Stefán fóru um víðan völl í spjalli sínu, en innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Stefán Árni og Davíð Tómas fara yfir málin



Fleiri fréttir

Sjá meira


×