Menning

„Ein­hverjir galdrar í pressunni“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Jónína Björg ræddi við blaðamann um sýninguna Undiralda.
Jónína Björg ræddi við blaðamann um sýninguna Undiralda. Aðsend

„Hafið togar alltaf í mig,“ segir myndlistarkonan Jónína Björg sem stendur fyrir sýningunni Undiralda. Sýningin verður í Mjólkurbúðinni á Akureyri og opnar næstkomandi laugardag.

Uppáhalds verkin gerð á lokametrunum

Jónína Björg ætlar að sýna glæný verk í Listagilinu í Mjólkurbúðinni og segir sum verk sín jafnvel óþarflega ný.

„Ég er stundum á síðustu stundu. Það er eins og ég ákveði að það sé gjörsamlega nauðsynlegt að mála nokkur ný verk, þó ég hefði haldið að þetta væri allt klappað og klárt á þeim tímapunkti. Svona er þetta oft, það eru einhverjir galdrar í pressunni og þreytunni og súrum hausnum þegar nálgast opnunardag.“

Hún segir þó að þá gerist alltaf eitthvað gott.

„Þetta eru í raun oft uppáhalds verkin mín, þau sem ég geri á síðustu metrunum fyrir sýningu.“

Konan og hugsanir hennar eru í forgrunni á sýningunni Undiralda. Jónína Björg

Konan og hennar hugsanir í forgrunni

Fyrir þessa sýningu er konan og hennar hugsanir í brennidepli og segir Jónína Björg að konan virðist hafa fundið sig eða jafnvel falið sig við hafið.

„Ég hugsa að innblásturinn fyrir þessari sýningu hafi hann komið þegar ég var í göngutúr í fjöru hér við Akureyri. Ég fer oft í göngutúr þegar mig vantar góðar hugmyndir og labba eitthvert út í buskann. Best er að reyna að týnast, sem getur verið erfitt á stað sem ég þekki vel, en í raun þeim mun skemmtilegra því þá er það svo óvænt; að finna eitthvað nýtt. En hafið togar alltaf í mig.“

Tenging mín við alheiminn og leið til að núllstilla mig

Jóna Björg segist ekki hafa áttað sig á því hvað hafið var henni mikilvægt fyrr en hún flutti til Danmerkur fyrir þrettán árum síðan.

„Ég bjó þá í Aarhus, á stað þar sem að maður sá ekki sjóinn um leið og maður vaknaði. Hafið var samt nálægt, bara ekki nógu nálægt.

Það leið aldrei nema vika, þá fann ég eirðarleysið byggjast upp í mér og ég varð að taka göngutúr niður að sjónum. Heyra sjávarniðinn, finna lyktina af sjónum, sjá vatnið seytla af steinunum og yfir þá, og best af öllu var ef það var hvasst og öldurótið þannig að það skvettist smá á mann. 

Það var eins og þetta væri tengingin mín við alheiminn og leið til að núllstilla mig. 

Þarna eru engin fjöll sem var nógu slæmt, ég rata greinilega varla án þess að hafa fjöll til að miða við, en sjórinn er mikilvægari.“

Hafið er Jónínu mjög mikilvægt og segir hún það vera sína tengingu við alheiminn.Jónína Björg

Að sjá hafið frá sjónarhorni krabba

Jónína Björg segist sérstaklega heilluð af fjörum og þar geti hún alltaf týnt sér.

„Þær eru eins og fjársjóðskista. Þar er endalaust af spennandi hlutum. Fjaran gefur svo miklar vísbendingar um það sem leynist ofan í sjónum, sem er svo framandi í raun því þangað hef ég aldrei komið.“

Hún segir að verkin sem hún vann fyrir þessa sýningu endurspegli að öllum líkindum áhugaverða þrá.

„Ég býst við því að þau sýni löngun mína til að vera ogguponkulítil og sjá hafið frá sjónarhorni krabba eða kóralls. Að skoða hafsbotninn eins og maður skoðar lyngið í móa þegar maður liggur á milli þúfna, með sínum kóngulóm og smágerðu blómum.

Ég veit sjaldnast sjálf alveg hundrað prósent hvers vegna verkin mín verða eins og þau verða. Ég reyni að vera ekki of gagnrýnin á það sem ég skyssa eða það ég sé fyrir mér áður en það fer á strigann. Það sem á að koma kemur. Svo sé ég oftast eftir á hvers vegna það var.“

Jónína Björg hér mynduð á vinnustofunni í Laxdalshúsi. Hún segist reyna að vera ekki gagnrýnin á það sem hún er að skyssa hverju sinni. Það sem á að koma kemur. Aðsend

Sýningin stendur svo frá 14. okt til 22. okt. Hún er opin laugardaga og sunnudaga á milli klukkan 14:00 og 17:00 og eftir samkomulagi.

„Þetta sýningarrými, Mjólkurbúðin, er líka svo hentugt því að maður sér alla sýninguna ágætlega í gegnum gluggana þegar maður gengur framhjá, svo það er hægt að sjá verkin allan sólarhringinn í raun,“ segir Jónína Björg að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×