Enski boltinn

Telur að Man United nái ekki topp fimm

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gary Neville spilaði með Man United allan sinn feril.
Gary Neville spilaði með Man United allan sinn feril. Alex Livesey/Getty Images

Sparkspekingurinn Gary Neville, fyrrverandi leikmaður Manchester United og enska landsliðsins, telur að hans gamla félag verði ekki meðal fimm efstu liða ensku úrvalsdeildarinnar þegar henni lýkur næsta vor.

Man United lagði Brentford með tveimur mörkum gegn einu á einkar dramatískan hátt um liðna helgi. Man Utd var marki undir þegar venjulegur leiktími var liðinn en Skotinn Scott McTominay skoraði tvívegis í uppbótartíma og tryggði sínum mönnum óverðskuldaðan sigur.

Man United hefur hins vegar byrjað tímabilið skelfilega og er með aðeins 12 stig að loknum 8 umferðum á Englandi. Þá hefur liðið tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í Meistaradeild Evrópu og er alls óvíst að liðið komist upp úr riðli sem inniheldur Bayern München, Galatasaray og FC Kaupmannahöfn.

Í hlaðvarpi Neville á vegum Sky Sports kemur fram að hann telji engar líkur á að Man United endi meðal efstu fimm liðanna. Hann telur Chelsea betur í stakk búið til að gera atlögu að Meistaradeildarsæti. Hann telur Lundúnaliðið hins vegar þurfa bæði miðvörð og framherja.

Um sitt gamla félag hafði hann þetta að segja:

„Þeir eru langt frá því nægilega góðir. Það kemur mér á óvart því fyrir sjö eða átta vikum spáði ég því að þeir myndu enda í þriðja sæti annað árið í röð.“

Hann nefnir að André Onana, markvörður liðsins, hafi engan veginn aðlagast Englandi og það leiði af sér óstöðugleika í öftustu línu. Þá segir Neville að aldurssamsetningin á Chelsea-liðinu sé betri en hjá Man United.

Man United mætir Sheffield United í næstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar áður en nágrannar þeirra og Englandsmeistarar Manchester City mæta á Old Trafford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×