Fótbolti

„Þegar ég var tvítugur var ég enn á brjósti“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gianfranco Zola kom Jude Bellingham til að skellihlæja.
Gianfranco Zola kom Jude Bellingham til að skellihlæja. getty/Robin Jones

Jude Bellingham gat ekki annað en skellihlegið þegar Chelsea-goðið Gianfranco Zola notaði ansi sérstaka leið til að lýsa því hversu langt Real Madrid-maðurinn væri kominn miðað við aldur.

Bellingham átti stórleik þegar England sigraði Ítalíu, 3-1, á Wembley í undankeppni EM 2024 í gær. Með sigrinum tryggðu Englendingar sér sæti á EM.

Bellingham fiskaði vítaspyrnuna sem Harry Kane jafnaði fyrir England úr og lagði svo annað mark liðsins upp fyrir Marcus Rashford.

Bellingham mætti í viðtal á Channel 4 eftir leikinn þar sem hann hitti meðal annars Zola og annan fyrrverandi Chelsea-mann, Joe Cole. Zola stal senunni þegar hann reyndi að skýra það hversu langt hinn tvítugi Bellingham væri kominn miðað við aldur.

„Ég verð að segja að þetta fær mig til að hlæja því þegar ég var tvítugur var ég enn á brjósti,“ sagði Zola.

Bellingham og aðrir viðstaddir sprungu úr hlátri eftir þessi ummæli Zolas sem reyndi að koma því áleiðis að hann hefði ekki meint þetta bókstaflega.

Ítalir eru í 3. sæti C-riðils undankeppni EM með tíu stig eftir sex leiki. Í síðustu tveimur leikjum sínum í undankeppninni mætir Ítalía Norður-Makedóníu og Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×