Innlent

Ef Agnes vígði prest sem gaf fólk saman, er hjóna­bandið lög­legt?

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Einar Gautur segir niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar vekja fleiri spurningar en hún svarar.
Einar Gautur segir niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar vekja fleiri spurningar en hún svarar.

Einar Gautur Steingrímsson hæstaréttarlögmaður segir að ef gengið sé út frá því að niðurstaða úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar um embættishæfi Agnesar M. Sigurðardóttur sé réttur sé enginn biskup yfir Íslandi.

Þetta segir Einar Gautur í samtali við Morgunblaðið.

Úrskurðanefndin komst að þeirri niðurstöðu á dögunum að ákvörðun Agnesar um að víkja séra Gunnari Sigurjónssyni úr starfi sóknarprests í Digranesprestakalli vegna kynferðislegrar áreitni hefði verið ólögmæt.

Agnes hefði ekki haft umboð til slíkra ákvarðana, þar sem skipunartími hennar rann út áður og hún hafði ekki verið endurkjörin biskup heldur endurráðin, af undirmanni sínum. Málið er nokkuð flókið, þar sem ekki var boðað til biskupskjörs þrátt fyrir að skipunartíminn væri að renna út. Þá spila inn í lagabreytingar sem gerðu það að verkum að biskup og prestar eru ekki lengur embættismenn heldur starfsmenn þjóðkirkjunnar.

Agnes hefur ákveðið að fara með úrskurðinn fyrir dómstóla en Einar Gautur segir hann geta haft áhrif á fleiri en Agnesi sjálfa.

„Ef hún hef­ur vígt ein­hvern guðfræðing til prests og skipað hann í prest­sembætti eft­ir að umboði Agnes­ar sleppti, þá er spurn­ing hvort hann hafi nokk­urn tím­ann orðið prest­ur. Ef hann hef­ur síðan gift fólk sem svo skil­ur, þá get­ur það haft áhrif á það hvort það fólk er talið hafa verið lög­lega gift, þannig að álita­efn­in sem vakna út af þessu geta teygt sig víða. Úrsk­urður­inn vek­ur fleiri spurn­ing­ar en svarað er,“ seg­ir Ein­ar Gaut­ur.

„Miðað við þenn­an úr­sk­urð er staðan sú að það er ekk­ert að marka nein­ar ákv­arðanir sem sr. Agnes hef­ur tekið eft­ir 1. júlí 2022 sem heyra und­ir vald bisk­ups. All­ar ákv­arðanir sem hún tek­ur og bisk­up einn hef­ur vald til að taka eru mark­leysa miðað við þessa niður­stöðu úr­sk­urðar­nefnd­ar þjóðkirkj­unn­ar og hafa ekk­ert gildi. Ef við göng­um út frá því að úr­sk­urður úr­sk­urðar­nefnd­ar­inn­ar sé rétt­ur, þá er eng­inn bisk­up yfir Íslandi,“ seg­ir hann.

Þess ber að geta að Einar Gautur var lögmaður séra Ólafs Jóhannssonar, sóknarprests í Grensásprestakalli, sem biskup veitti tímabundið lausn frá störfum eftir að fimm konur í prestakallinu stigu fram og ásökuðu hann um kynferðisbrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×