Innlent

„Við spýtum í lófana og vinnum hraðar“

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Mörg fyrirtæki og stofnanir eru enn að velta því fyrir sér hvernig skipulaginu verði háttað á þriðjudag.
Mörg fyrirtæki og stofnanir eru enn að velta því fyrir sér hvernig skipulaginu verði háttað á þriðjudag. Stöð 2

Ýmsir hlutar samfélagsins munu lamast eftir helgi þegar konur og kvár leggja niður störf. Leik- og grunnskólum verður víða lokað og skert þjónusta verður á heilsugæslu. Feður hyggjast taka börn sín í vinnuna eða vinna að heiman.

Þriðjudaginn 24. október munu konur og kvár leggja niður störf sín og mun það hafa víðtæk áhrif á samfélagið í heild sinni. Skerða þarf þjónustu í mörgum leikskólum eða jafnvel loka þeim alveg. Það sama er uppi á teningnum í grunnskólum. 

Á meðan sumir skólar loka alveg hafa sumir brugðið á það ráð að biðla til foreldra að hafa börnin sín heima svo þeir sem nauðsynlega þurfi að mæta í skólann geti mætt. Það sama á við um frístundaheimilin.

Aðeins bráðaerindi á heilsugæslu

Þá eru mörg fyrirtæki og stofnanir enn að skipuleggja sína daga og rýna í hvort þeir geti haldið opnu eða hvort þeir þurfi að skerða þjónustu eða jafnvel loka. Fréttastofa náði tali af nokkrum einstaklingum í dag sem öll eru klár í daginn. 

Valý Þórsteinsdóttir hyggst fara í verkfall og segir hún manninn sinn sjá um börnin þann dag. „Ég hugsa að ég verði með stúlkuna í vinnunni fram að hádegi allavega,“ segir Klemenz Freyr. Jóhann Torfi hyggst vinna að heiman með börnin. „Það er bara allt í góðu, við styðjum þetta heilshugar.“

Ætlar að taka þátt í dagskránni

Silja Rúnarsdóttir ætlar ekki að mæta til vinnu og sér fram á að taka þátt í dagskrá dagsins eins og hún leggur sig. Viggó segir samstarfskonur sínar ætla að taka þátt í deginum og að þær njóti fulls stuðnings. „Við spýtum bara í lófana og vinnum aðeins hraðar og verðum öflugri,“ segir hann. 

Birna Rún er í menntaskóla og ætlar að taka þátt í verkfallinu ásamt kvenkyns kennurum skólans. „Amma mín er í Hveragerði og ég ætla að fara sækja hana og við ætlum að fara á Arnarhól.“

Valdimar Þór Svavarsson segir daginn ekki verða öðruvísi en aðra að öðru leyti en því að dóttir hans sem er í grunnskóla verði heima þennan dag vegna verkfallsins. „Ég mun sinna henni alveg ofsalega vel,“ segir Valdimar glaður í bragði. 


Tengdar fréttir

Engin skylda að greiða laun í kvenna­verk­falli

Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins segja eðlilegt að atvinnurekendur spyrji sig af hverju það er sjálfstætt markmið skipuleggjenda kvennaverkfalls á þriðjudag að valda atvinnulífinu sem mestu tjóni. Þá hvíli engin skylda á atvinnurekendum að greiða laun í fjarvistum vegna verkfallsins.

Sýnum sam­stöðu - stöndum vaktina!

Þann 24. október næstkomandi leggja konur og kvár niður störf í sjöunda skipti til að mótmæla launamun og kynbundnu ofbeldi og ekki af ástæðulausu. 

Sam­herji borgar ekki laun starfs­fólks í kvenna­verk­falli

Norð­lenska fisk­vinnslu­fyrir­tækið Sam­herji hyggst ekki greiða konum og kvárum sem vinna hjá fyrir­tækinu laun mæti þau ekki til vinnu næsta þriðju­dag, þegar boðað hefur verið til kvenna­verk­falls. Starfsfólki er þó frjálst að skreppa á 45 mínútna mótmælafund á Akureyri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×