Forsvarsmenn SA birtu grein í dag á vef samtakanna þar sem fram kom að eðlilegt væri að atvinnurekendur spyrðu sig af hverju markmið skipuleggjenda verkfallsins væri að valda atvinnulífinu sem mestu tjóni. Engin skylda hvíli á atvinnurekendum til að greiða laun í fjarvistum vegna verkfallsins.
Rætt var við Sigríði Margréti í kvöldfréttum Stöðvar 2 en þar áréttaði hún að forsvarsmenn SA styddu baráttu við kynbundinni mismunun og ofbeldi.
„Það sem skiptir rosalega miklu máli að hafa í huga er það hversu mikið hefur áunnist frá því að kvennafrídagurinn var haldinn fyrst árið 1975 fyrir tæplega hálfri öld. Við sjáum það til dæmis að samkvæmt greinargerð Hagstofu Íslands, þá er leiðréttur launamunur kynjanna 4,1 prósent. Og við vitum það líka að þessi launamunur er fyrst og fremst vegna þess að kyn eru að velja sér mismunandi tegundir starfa og atvinnugreina.“
Sigríður Margrét segir að ef horft sé á óleiðrétta launamuninn þá liggi fyrir að karlar séu mun líklegri til að vinna yfirvinnu heldur en konur. Það gæti útskýrt hærra meðaltímakaup karlmanna.
Mikið áunnist síðustu fimmtíu ár
„Sú staða, að árið 2023 á Íslandi, þá erum við með forsætisráðherra sem er kona, fjármálaráðherra sem er kona og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins sem er kona. Sem segir auðvitað mjög margt um það sem hefur áunnist á þessari tæpu hálfu öld sem er liðin.“
Þegar talið berst að fyrrnefndri grein segir hún skjóta skökku við að verið sé beinlínis að hvetja til þess að konur og kvár gangi úr störfum sínum án þess að láta yfirmenn vita. Staða og eðli fyrirtækja sé mjög mismunandi og Samtök atvinnulífsins leggi áherslu á að meðalhófs sé gætt.
„Og við erum þess vegna að leggja áherslu á það að bæði konur og kvár, sem vilja taka þátt í kvennafrídeginum, geri það með góðum fyrirvara og í þá samvinnu við sinn yfirmann svo hægt sé að skipuleggja fjarvistir, ef því er hægt að koma við,“ segir Sigríður Margrét.
Sjálf ætlar hún ekki að taka þátt í verkfallinu: „Ég ætla að vera á opnum vinnufundi í Reykjanesbæ, vegna þess að stærsta verkefni sem við stöndum frammi fyrir núna, það er að brjótast út úr vítahring verðbólgu og vaxta. Þannig að ég ætla að vera þar á opnum vinufundi með atvinnurekendum, starfsfólki og öllum sem vilja koma til að ræða lausnir á því að ná niður verðbólgu og lækka vexti á Íslandi.“