Körfubolti

Andre Iguodala kveður körfuboltann

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Andre Iguodala varð fjórum sinnum NBA meistari með Golden State.
Andre Iguodala varð fjórum sinnum NBA meistari með Golden State. Vísir/AP

Andre Iguodala, fjórfaldur NBA meistari með Golden State Warriors og verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar 2015, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir nærri tuttugu ára feril. Iguodala sagði ákvörðunina hans eigin og að samningstilboð hafi borist honum.

Iguodala var valinn 9. í nýliðavali deildarinnar árið 2004 af Philadelphia 76ers. Hann komst svo í úrvalslið nýliða á sínu fyrsta tímabili. Hann lék með félaginu til árins 2012 þegar hann gekk til liðs við Denver Nuggets í eitt ár. 

Þaðan fór hann til Golden State Warriors og tókst að afreka ótrúlega hluti á tíma sínum þar, á öðru tímabilinu vann hann fyrsta hringinn og var valinn verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar. Steph Curry og LeBron James komu á eftir honum í kosningunum. Á þriðja tímabilinu setti liðið svo sigurmet þegar þeir unnu 73 af 82 leikjum, afrek sem engum hafði tekist áður. 

Titillinn fór þó til Cleveland það ár en Golden State tókst að hefna sín næstu tvö árin á eftir og hampaði titlunum 2017 og 2018. Iguodala var þó í minna hlutverki þar en hann hafði áður verið. 

Leikmaðurinn fluttist svo í eitt tímabil til Miami áður en hann sneri aftur til Golden State og lyfti fjórða titlinum með liðinu árið 2022. En eftir að hafa aðeins spilað 8 leiki á tímabilinu eftir það hefur hann nú ákveðið að leggja skóna á hilluna. 

Iguodala fer í sögubækurnar sem 39. leikjahæsti leikmaður í sögu deildarinnar með 1231 leik spilaðan. Hann átti einnig það ótrúlega afrek að hafa byrjað inn á í fyrstu 758 deildarleikjum sínum. 

Auk afreka með félagsliðum sínum varð Iguodala ólympíumeistari árið 2012 og endaði í öðru sæti á HM 2010 með bandaríska landsliðinu. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×