Erlent

Í­búum í Lewi­ston og nær­liggjandi bæjum sagt að halda sig inni við

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Miðlum ber ekki saman um fjölda látinna en allt að 22 eru sagðir látnir og 50 til 60 særðir.
Miðlum ber ekki saman um fjölda látinna en allt að 22 eru sagðir látnir og 50 til 60 særðir. Getty/Anadolu/Fatih Aktas

Hundruð lögreglumanna leita nú Robert Card, 40 ára, sem er grunaður um að hafa orðið að minnsta kosti sextán að bana í tveimur skotárásum í borginni Lewiston í Maine í Bandaríkjunum.

Fjöldi látinna og særðra er eitthvað á reiki en New York Times segist hafa heimildir fyrir því að sjö séu látnir hið minnsta en Washington Post og fleiri miðlar segja sextán. Þá er haft eftir löggæsluyfirvöldum að líklega muni talan hækka en tugir virðast hafa særst.

Samkvæmt lögreglunni í Lewiston, þar sem íbúar eru um 38 þúsund talsins, lét árásarmaðurinn til skarar skríða í keilussalnum Just-In-Time Recreation, sem áður hét Sparetime Recreation. Þá var einnig tilkynnt um skotárás á veitingastaðnum Schemengees Bar and Grille, sem er í um sjö kílómetra fjarlægð.

Keilumót barna stóð yfir í keilusalnum þegar árásin átti sér stað.

Samkvæmt upplýsingum frá ónafngreindum heimildarmönnum innan lögreglunnar er Card skotvopnakennari og liðsmaður í varaliði bandaríska hersins. Hann virðist hafa glímt við andleg veikindi og lá inni á stofnun í einhverjar vikur í sumar.

Card hefur ekki fundist en umfangsmikil leit stendur yfir. Íbúum í Lewiston og í bæunum Lisbon og Bowdoin hefur verið skipað að halda sig inni og þá hefur verið gefið út að fjöldi skóla í ríkinu verði lokaður þar til Card hefur verið handsamaður.

Hann er sagður vopnaður og hættulegur og fólk hvatt til þess að halda sig frá honum ef það sér hann.

Ef rétt reynist að sextán séu látnir er um að ræða blóðugustu skotárásina í Bandaríkjunum í ár en á þessu ári hafa 34 skotárásir átt sér stað þar sem fórnarlömbin voru fjögur eða fleiri. Það er það viðmið sem Alríkislögreglan og Violence Project nota til að skilgreina fjöldadráp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×