Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins kemur fram að lögreglunni hafi borist ábending frá dýravelferðarsinnum vegna málsins. Lögregla hafi svo stöðvað vöruflutningabíl sem hafi verið fullur af lifandi köttum.
Dýravelferðarsinnar höfðu fengið veður af því að miklum fjölda katta hefði verið komið fyrir í trékössum í kirkjugarði í borginni. Þeir fylgdust með kössunum í sex daga, þar til að köttunum var komið fyrir um borð í vöruflutningabílnum þann 12. október síðastliðnum.
Breska ríkisútvarpið vinnur umfjöllun sína upp úr kínverskum miðlum en þar kemur fram að umfjöllunin hafi valdið mikilli reiði meðal almennings á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo. Kölluðu einhverjir eftir því að reglur um dýravelferð yrðu hertar í landinu.
Þá kemur fram að hægt sé að fá um 4,5 yuan fyrir hver sex hundruð grömm af kattakjöti eða því sem nemur 0,61 bandaríkjadali og tæpum 87 íslenskum krónum. Svartur markaður með kattakjöt sé því blómlegur.
Óljóst er hvort kettirnir þúsund sem bjargað var hafi verið villikettir eða gæludýr. Zhangjiagang er í norðausturhluta Kína en til stóð að flytja kettina til suðurhluta landsins þar sem nýta átti kjötið af þeim og dulbúa sem svínakjöt og lambakjöt, meðal annars í formi pylsna.