Formúla 1

Ferrari á fremstu rásröð með heimsmeistaran fyrir aftan sig

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Charles Leclerc ræsir fremstur í kvöld.
Charles Leclerc ræsir fremstur í kvöld. Mark Thompson/Getty Images

Ferrari-mennirnir Charles Leclerc og Carlos Sainz verða á fremstu rásröð þegar farið verður af stað í mexíkóska kappakstrinum í Formúlu 1 í kvöld. Nýkrýndi þrefaldi heimsmeistarinn Max Verstappen er þó ekki langt undan og ræsir þriðji.

Úrslitin í heimsmeistaramóti ökumanna eru þegar ráðin og Max Verstappen hefur nú þegar fagnað titlinum. Enn er þó barist um önnur sæti á heimsmeistaramótinu þar sem liðsfélagi Verstappen, Sergio Perez situr í öðru sæti með 240 stig.

Þeir Carlos Sainz og Charles Leclerc sitja í 5. og 7. sæti heimsmeistaramótsins og geta enn barist um að koma sér í efstu þrjú sætin. Leclerc fær gullið tækifæri til að næla sér í fullt hús stiga í kvöld því það var hann sem átti besta tíman í tímatökum gærkvöldsins og ræsir því fremstur í kvöld.

Liðsfélagi hans hjá Ferrari, Carlos Sainz, ræsir annar og heimsmeistarinn Max Verstappen ræsir þriðji. Þá fær Daniel Ricciardo gott tækifæri til að næla í mikilvæg stig fyrir Alpha Tauri því hann ræsir fjórði, fyrir framan Sergio Perez sem ræsir fimmti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×