Körfubolti

„Sér­­­stakt að vera allt í einu kippt út úr þessu“

Aron Guðmundsson skrifar
Íslenska landsliðskonan í körfubolta, Dagný Lísa Davíðsdóttir, hefur verið að glíma við krefjandi meiðsli undanfarið tæpt ár
Íslenska landsliðskonan í körfubolta, Dagný Lísa Davíðsdóttir, hefur verið að glíma við krefjandi meiðsli undanfarið tæpt ár Vísir/Arnar Halldórsson

Dag­ný Lísa Davíðs­dóttir var árið 2022 valin besti leik­­maður efstu deildar kvenna í körfu­­bolta og var hún á sama tíma reglu­­legur hluti af ís­­lenska lands­liðinu. Undir lok ársins 2022 meiddist hún hins vegar í leik með Fjölni. Meiðslin hafa haldið henni fjarri körfu­­bolta­vellinum og ó­­víst er hve­­nær hún snýr aftur.

„Ég er enn í miðju bata­­ferli. Þetta hefur tekið, því miður, miklu lengri tíma en búist var við upp­­haf­­lega,“ segir Dag­ný í sam­tali við Vísi. „Ég bind þó vonir við að þetta sé allt á réttri leið.“

Það var í desember í deildar­­keppninni á síðasta tíma­bili sem Dag­ný meiðist í leik með Fjölni gegn Haukum. Upp­­haf­­lega var búist við því að hún yrði frá keppni í sex til átta vikur.

„Ég sem sagt hand­­leggs­brotna í þessum um­­rædda leik. Það brotnaði bein í úln­liðnum og það brot í rauninni grær á þessum sex til átta vikum sem búist var við að ég yrði fjarri keppni. En í milli­­­tíðinni kemur það í ljós að við brotið skaddast lið­band í höndinni og það virðist ætla að taka heila ei­lífð fyrir það að gróa. Það er það sem ég er að eiga við þessa dagana.“

Dagný Lísa í leik með FJölniVÍSIR/VILHELM

Óvissan hafði sín áhrif á ákvörðunina

Endur­hæfingar­ferlið hefur skiljan­lega tekið á fyrir þennan öfluga leik­mann.

„Langt og strangt,“ eru orðin sem Dag­ný notar til að lýsa bata­­ferlinu. „Það sem gerir þetta einnig sér­­stakara er að samningur minn við Fjölni rann sitt skeið núna í vor. Ég í rauninni tók þá á­­kvörðun að skrifa ekki undir nýjan samning á meðan að ég vissi í rauninni sjálf ekki hvert fram­haldið væri. Hvað ég ætti langt í land.

Það hefur því verið skrítið að fara í gegnum þetta bata­­ferli samnings­­laus. Ekki með neinu liði alla daga eins og hefur verið raunin hjá manni áður. Þetta eru hins vegar kring­um­­stæður sem maður bara tæklar.“

Dagný hafði unnið sér sæti í íslenska landsliðinu með frábærri spilamennsku sinni Bára Dröfn

Tekst á við áskorunina með þolinmæði og jákvæðnina að vopni

En hvar ertu þá stödd í bata­­ferlinu núna? Hvað máttu og hvað máttu ekki gera?

„Ég má í raun gera rosa­­lega mikið. Má í raun gera það sem ég get þannig séð. Þessi gróandi hefur gengið mjög vel en þetta tekur þó allt sinn tíma. Þegar að líkaminn segir nei eða stopp, þá er fátt sem maður getur sagt á móti. Þessa mánuði hef ég þurft að sýna mikla þolin­­mæði og já­­kvæðni.“

Það er þó ekki víst hve­­nær hún getur snúið aftur inn á körfu­­bolta­­völlinn.

„Mig langar ekki að ljúga ein­hverju að sjálfri mér. Mig langar ekki beint að á­­kveða ein­hvern einn tíma­­punkt á endur­­komu. Ég hef náttúru­­lega áður, nokkrum sinnum, gert það í gegnum þetta ferli og þeir tíma­­punktar ollu mér síðan von­brigðum.

Þannig að ég er ekki með ein­hverja eina dag­­setningu í huga. Það væri hins vegar rosa­­lega gaman að komast aftur á parketið, þar sem að maður á heima, sem fyrst.“

En ég skynja hjá þér fullan hug á því að snúa aftur.

„Ég get alla­ vega ekki sagt að ég sé búin að leggja skóna á hilluna.“

Náð að rækta önnur svið

„Þessu fylgir mikið svekk­elsi. Körfu­boltinn er eitt­hvað sem hefur verið megin­partur af mínu lífi alla ævi. Auð­vitað hefur það því verið sér­stakt að vera allt í einu bara kippt út úr þessu.“

Á sama tíma reynir hún þó bara að njóta alls þess sem að hún hefði áður fórnað fyrir í­þróttina.

„Þetta eru í raun hlutir sem eru í eðli sínu rosa­lega ein­faldir. Hlutir eins og að mæta ekki í fjöl­skyldu­boð með blautt hárið ný­komin af æfingu eða mæta seint, fara snemma og jafn­vel missa af ein­hverju á­kveðnu vegna körfu­boltans. Þetta eru stundir, aðal­lega með fjöl­skyldum og vinum og önnur svið í lífinu sem maður hefur náð að rækta síðustu mánuði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×