Alfreð hóf leik á varamannabekk Eupen, en Guðlaugur Victor Pálsson var á sínum stað í byrjunarliðinu og lék allan leikinn í vörn gestanna.
Heimamenn í St. Treuden náðu forystunni á 20. mínútu þegar Rune Paeshuyse varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net og staðan var því 1-0 í hálfleik.
Raunar virtist það ætla að verða eina mark leiksins, en það var ekki fyrr en að tæpar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma að gestunum í Eupen tókst að jafna. Milos Pantovic kom þá boltanum í netið eftir stoðsendingu frá Alfreði Finnbogasyni sem hafði komið inn af varamannabekknum á 78. mínútu og þar við sat.
Niðurstaðan því 1-1 jafntefli og Eupen situr nú í tíunda sæti deildarinnar með 14 stig eftir 13 leiki, þremur stigum á eftir St. Treuden sem situr í áttunda sæti.