Formúla 1

Verstappen sló 71 árs gamalt met í Sao Paulo

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Max Verstappen er að eiga sögulegt tímabil
Max Verstappen er að eiga sögulegt tímabil Vísir/Getty

Max Verstappen, ökuþór Red Bull, hélt áfram að bæta eigið sigurfjöldamet þegar hann vann öruggan sigur í Formúlu 1 kappakstrinum í Sao Paulo. Þetta var 17. sigur Verstappen á tímabilinu. 

Lando Norris, ökuþór McLaren, gerði atlögu að fremsta sætinu í upphafi kappakstursins en Verstappen svaraði öllum tilraunum hans vel og brunaði örugglega að sigrinum eftir það. 

Með þessum sigri staðfestir tölfræðin tímabil Verstappen sem það besta í sögu F1. Hann sló 71 árs gamalt met Albertos Ascari sem sigraði 6 af 8 keppnum (75%) árið 1952, jafnvel þó Verstappen tapi vinni ekki síðustu tvær keppnirnar mun hann enda tímabilið með að minnsta kosti 17 sigra af 22 keppnum sem jafngilda 77,2%. 

Mercedes átti sinn versta kappakstur á þessu tímabili, Lewis Hamilton endaði í 8. sæti og George Russell í 11. sætinu. Breytingar voru gerðar á bílum þeirra eftir að Lewis Hamilton var dæmdur úr leik í Austin kappakstrinum. 

Toto Wolff sagði þetta það versta sem hann hefur séð á 13 ára skeiði sínu sem eigandi liðsins, hann sagðist vorkenna ökuþórum sínum að þurfa að keyra svo slakan bíl og ýjaði að því að glænýjan bíl þurfi til ef Mercedes ætlar að ná árangri. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×