Sport

Dómarinn skipaði þeim að fara í bikiní

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emilie Olimstad og Sunniva Helland-Hansen stóðu harðar á sínu og létu dómarann ekki vaða yfir sig.
Emilie Olimstad og Sunniva Helland-Hansen stóðu harðar á sínu og létu dómarann ekki vaða yfir sig. @olimstademilie

Norsku strandblakkonurnar Emilie Olimstad og Sunniva Helland-Hansen létu ekki dómarann vaða yfir sig á móti á dögunum.

Dómari leiks þeirra á heimsbikarmóti í Tælandi gerði athugasemd við klæðaburð þeirra þegar þær norsku mættu til leiks. Dómarinn skipaði þeim Emilie og Sunnivu að skipta yfir í bikiní.

Fyrir nokkrum árum hafði norska strandblaksambandið fullvissað sig um það að reglurnar krefðust þess ekki að keppendur í strandblaki kepptu í bikiní.

Olimstad og Helland-Hansen voru að fara að mæta þýskum stelpum þegar dómarinn setti fram fyrrnefnda kröfu.

„Í fyrstu hlógum við næstum því að þessu af því að við vissum vel að þetta var ekki í reglunum. Þetta var broslegt því við vorum með það á hreinu að við máttum spila í stuttbuxum,“ sagði Sunniva Helland-Hansen við norsku fréttaveituna NTB.

Dómarinn benti þeim á það að þýsku stelpurnar væru í bikiní og því ættu þær að klæðast bikiní líka.

„Þá svaraði ég: Nei við þurfum þess ekki. Þú getur bara skoðað reglubókina,“ sagði Helland-Hansen.

Dómarinn fór og talaði við aðra dómara á mótinu og komst loksins að því að þær mættu spila í stuttbuxum. Norska sambandið ætla að senda inn fyrirspurn til alþjóðasambandsins og fá skýringar á þessari uppákomu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×