Frá þessu greinir Morgunblaðið.
Huginn sakar ráðuneytið um að hafa brotið lög með því að hafa samráð við hagsmunaaðila, sem hafa gert athugasemdir við útgáfu bókarinnar og sagt hana vega að sæmdarrétti Guðmundar, sem notaði listamannsnafnið Muggur.
Þá segir Huginn ráðuneytið ekki hafa orðið við beiðni hans um afhendingu allra gagna í málinu en ráðuneytið ber því við að vinnugögn séu undanþegin upplýsingarétti.
„Í stað þess að ráðuneyti taki við formlegri kvörtun vinnur ráðuneytið með hinum aðilum málsins og er þannig ekki lengur hlutlaus aðili til að meta málið,“ segir Huginn í samtali við Morgunblaðið og bendir meðal annars á tölvupóstsamskipti sem virðast hefjast þegar starfsmaður ráðuneytisins er spurður kumpánlega:
„Gætir þú tekið snúning á þessu í ráðuneytinu?“
„Að ráðuneyti skuli rjúka til og hefja rannsókn á methraða, löngu áður en verk kemur út, með engar upplýsingar, lyktar ekki bara af valdníðslu og misnotkun stjórnsýslu, slík brot og vinahygli gjörsamlega blasa við. Í vanþekkingu sinni er algjörlega óþekkt að opna á mál/rannsókn eftir pöntun hagsmunahópa,“ segir í kvörtun Hugins.
Hann krefst skaðabóta vegna málsins.