Bæði Eriksen og Højlund fóru meiddir af velli í naumum 1-0 sigri Man United á Luton Town í ensku úrvalsdeildinni um liðna helgi. Fyrr í dag var staðfest að þeir hefðu báðir dregið sig úr landsliðshópi Dana fyrir komandi verkefni í undankeppni EM.
Nú hefur verið staðfest að báðir tveir séu meiddir og verði frá næstu vikurnar.
Hinn 31 árs gamli Eriksen verður frá keppni í mánuð hið minnsta en á sama tíma er óljóst hversu lengi Højlund verður frá. Vonast er til að hann verði klár í lok nóvember sem þýðir að mögulega missir hann aðeins af deildareik gegn Everton þann 26. nóvember.
Aðeins þremur dögum síðar fer Man Utd til Tyrklands og mætir Galatasaray í leik sem það verður einfaldlega að vinna ætli það að eiga einhvern möguleika á að komast í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.
News coming out of Old Trafford doesn't make for great reading...#BBCFootball pic.twitter.com/MrLwU8yYYo
— Match of the Day (@BBCMOTD) November 13, 2023
Man United hefur verið að glíma við mikil meiðsli á leiktíðinni en þeir Casemiro, Amad Diallo, Jonny Evans, Tyrell Malacia, Lisandro Martínez og Luke Shaw misstu allir af leiknum gegn Luton vegna meiðsla. Þá er Jadon Sancho enn í agabanni.
Man United er í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 21 stig, sjö stigum á eftir toppliði Manchester City, þegar 12 umferðir eru búnar.