Norðmenn fá þá Færeyinga í heimsókn á Ullevål leikvanginn í Osló en þessi leikur er ekki hluti af undankeppni EM heldur vináttulandsleikur.
Norðmenn eiga ekki möguleika á að komast upp úr sínum riðli en Spánn og Skotland eru bæði komin áfram. Færeyingar eru líka úr leik en þeir hafa enn ekki náð að vinna leik í undankeppninni í sjö tilraunum.
Ståle Solbakken: "Erling (Haaland) kommer til å være på banen imorgen. Vi får se om det blir fra start eller i løpet av andre omgang" pic.twitter.com/8kGSoytoAL
— Fotball Norge (@FotballNO) November 15, 2023
Norski landsliðsþjálfarinn Ståle Solbakken sagði frá því á blaðamannafundi að Haaland spili leikinn. Hann vildi þó ekki gefa upp hversu margar mínútur hann mun spila.
Báðar þjóðir eru í fimm þjóða riðlum og eiga bara einn leik eftir. Þau spila því lokaleik sinn á sunnudag (Noregur) og mánudag (Færeyjar). Norðmenn heimsækja þá Skota til Glasgow en Færeyingar fljúga til Albaníu.
Norðmenn hafa ekki komist í lokakeppni stórmóts í 23 ár eða síðan þeir voru á EM 2000. Haaland hefur unnið allt með Manchester City en gengur lítið að ná árangri með landsliðinu.
Haaland er engu að síður búinn að skora 27 mörk í 28 landsleikjum og er þegar kominn upp í annað sætið yfir markahæstu landsliðsmenn Norðmanna. Honum vantar nú bara sex mörk til að jafna markamet Jörgen Juve sem skoraði 33 mörk í 45 leikjum á árunum á milli fyrri og seinni heimsstyrjaldar.
Haaland sat allan tímann á bekknum í síðasta vináttulandsleik, sem var á móti Jórdaníu í september, en nú fær hann að spila. Þetta gæti verið gott tækifæri til að minnka forskot Juve enn frekar.