„Við erum nú undir feldi. Við eigum eftir að hittast og ræða framhaldið. Við göngum ekki um gólf í einhverju sjokki, við eigum bara eftir að ræða þetta. Þetta sem átti að vera gleðilegt en virðist sem við séum orðin talsmenn einhverra stríðsátaka. Sem við erum ekki, en það er óþægilegt að vera í þeirri stöðu. Þetta er eins og það er,“ segir Yrsa í samtali við Vísi.
Eins og Vísir hefur greint frá myndaðist mikil andstaða meðal rithöfunda við hátíðina þegar spurðist að Hillary Clinton væri meðal þátttakenda. Sjötíu rithöfundar gáfu það út að þeir ætluðu að sniðganga hátíðina.
Yrsa tekur það skýrt fram að þau séu ekkert sturluð út í þetta fólk. Það eru miklar tilfinningar í þessu máli og það sé ágætt. Tveir sem til stóð að kæmu fram í pallborði drógu sig út, þau María Elísabet Bragadóttir og Pedro Gunnlaugur Garcia drógu sig út sem var högg í hóp þeirra sem komu fram.
Nenna varla að vera pólitísk hvítþvottastöð
Yrsa sagði að það sem átti að vera gleðilegt sé nú ekki og þau Ragnar séu helst á því á þessu stigi að snúa sér að einhverju öðru. Þetta er tíunda árið sem Iceland Noir er haldið en líklega 7. skiptið, því fyrstu árin var hátíðin haldin annað hvert ár. Þó víðtæk mótmæli hafi verið, og þau hafi fyrst og fremst haft áhrif á þá sem héldu hátíðina, vill Yrsa allt ekki að þetta komi út eins og hótun. Hún hefur fullan skilning á því að miklar tilfinningar séu í málinu.

„Það er nóg af hátíðum í heiminum. Það þýðir ekki að vera í neinu hatri. Við höfum ekki tekið ákvörðun um hvort þetta verði að ári. Það er ekki útaf Hillary, heldur hvort við raunverulega nennum þessu, að vera sökuð um að vera pólitísk hvítþvottastöð. Þetta er bara ákvörðun sem ég er ekki að leggja á herðar eins né neins,“ segir Yrsa.
Ekkert að friðsamlegum mótmælum
Þrátt fyrir mótmælin var uppselt á hátíðina. Og svo gott sem fullur salur þegar Hillary kom fram, eftir að efstu sætin voru tekin úr sölu. „Það var bara fínt.“
En hafði þetta ekki áhrif á þann hlut hátíðarinnar?
„Jú, hún sá ekki mótmælin en varð vör við þau. Hún vissi hvað var að gerast. Þau fylgjast með því sem fer fram á samfélagsmiðlum. Og svo sem sláandi fyrir þá sem löbbuðu inn en þetta voru friðsamleg mótmæli og ekkert að því.“
Yrsa segir að öll þurfum við okkar pláss í þessu lífi, mismunandi skoðanir sem er af hinu góða og geti ekki leitt neitt af sér nema gott.
„En okkur kom á óvart að við skyldum verða valin sem vettvangur. Maður verður bara að bera virðingu fyrir því sem öðrum finnst þó maður sé ekkert endilega alltaf sammála aðferðunum sem fólk er að.“