Leonard og félagar hans í Los Angeles Clippers mættu til San Antonio í NBA-deildinni í körfubolta í gær.
Leonard kom þar á sinn gamla heimavöll en hann lék með San Antonio á árunum 2011-18. Hann varð meistari með liðinu 2014 og var þá valinn besti leikmaður lokaúrslitanna.
Síðan Leonard yfirgaf San Antonio 2018 hefur hann ekki verið sá vinsælasti meðal stuðningsmanna liðsins og það kom bersýnilega í ljós í gær þegar þeir púuðu hraustlega á framherjann.
Þegar Leonard var á vítalínunni undir lok fyrri hálfleiks fékk Popovich hins vegar nóg af baulinu, tók upp hljóðnema og bað stuðningsmennina að hætta því. Atvikið má sjá hér fyrir neðan.
Orð Popovichs höfðu samt engin áhrif því stuðningsmenn San Antonio púuðu jafnvel enn hærra á Leonard þegar hann tók seinna vítið sitt.
Leonard og félagar unnu hins vegar leikinn, 102-109. Hann skoraði 26 stig og var stigahæstur á vellinum. Clippers, sem hefur unnið þrjá leiki í röð, er í 10. sæti Vesturdeildarinnar en San Antonio í fimmtánda og neðsta sætinu.