Greg Halford lék 28 leiki með Reading, Sunderland og Wolves í ensku úrvalsdeildinni. Hann hefur komið víða við á ferlinum en leikur núna með utandeildarliði Hashtag United.
Halford hefur tjáð sig um einhverfugreiningu sem hann fékk í ár, 38 ára að aldri. Hann fékk greininguna eftir að sonur hans var greindur með einhverfu.
„Ég hef ekki sagt neinum í fótboltanum þetta en ég er á einhverfurófi,“ sagði Halford og viðurkenndi að hann hefði átt erfitt með að aðlagast þegar hann lék með Sunderland.
„Mér fannst mjög erfitt að falla inn í nýjan hóp og breyta því hvernig ég lifði, hvar ég bjó, vera ekki með fjölskyldunni minni eða kærustunni á þeim tíma. Það var mjög, mjög erfitt. Ég átti erfitt með samskipti. Eftir æfingar vildi ég aldrei fara í matsalinn því ég vildi ekki vera í kringum fólk. Mér leið skringilega og vildi bara fara heim. Það var allt annað að vera inni á vellinum. Það var minn staður og ég get stjórnað mér þar. En mér fannst mjög erfitt að vera í litlum hópum á þessum tíma.“
Halford hefur alls leikið með sautján félögum á ferlinum. Auk Englands lék hann í Skotlandi og á Írlandi.