Menning

Setti ó­vart heilt bæjar­fé­lag inn í morðöldu

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Eva Björg Ægisdóttir ræddi um bókmenntir, jólahefðir, óhugnanlegar sögur, að skapa heima og ýmislegt fleira í þættinum Jólasaga.
Eva Björg Ægisdóttir ræddi um bókmenntir, jólahefðir, óhugnanlegar sögur, að skapa heima og ýmislegt fleira í þættinum Jólasaga. Vísir/Vilhelm

„Ég var náttúrulega búin að vera að skrifa um Akranes sem ég gerði mér ekki alveg grein fyrir hvað þýddi þegar ég var að skrifa fyrstu bókina. Að ég væri að taka svona heilt bæjarfélag og setja það inn í einhvers konar drápsöldu,“ segir rithöfundurinn Eva Björg Ægisdóttir í þættinum Jólasögu.

Hér má sjá þáttinn í heild sinni: 

Eva Björg er alin upp á Akranesi og hefur alla tíð elskað bækur. Hún tengir jólin við lestur en eftirminnilegasta jólabókin hennar er Ég man þig eftir Yrsu og segist Eva hafa átt erfitt með að sofa eftir lesturinn á henni.

Í nýju bókinni sinni Heim fyrir myrkur ákvað Eva að búa til bæjarfélag í staðinn fyrir að notast við heimabæ sinn.

„Ég gerði það í raun því ég ætlaði að leyfa mér að gera bæ með svolítið dökka mynd. Ég vildi hafa alls konar karaktera og reyna að lýsa svona litlu samfélagi sem flestir sem búa í litlum bæjum þekkja. Það er oft ákveðin dýnamík sem getur verið góð og slæm.“

Eva Björg segir alltaf skrýtið að gefa út bók og játar að það geti verið erfitt að fjarlægja sjálfa sig frá gagnrýninni. Hana dreymdi alltaf um að gefa út bók og vildi ná því fyrir þrítugt, sem hafðist.

Marglaga karakterar áhugaverðari

Eva Björg segist ekki hafa séð fyrir sér að geta unnið við þetta starf alfarið en bækurnar hennar eru nú komnar út á 18 tungumálum og hefur hún sinnt skrifunum í fullu starfi undanfarin ár. Hún er dugleg að ögra sér og segist hafa gengið lengra en nokkru sinni fyrr í nýjustu bók sinni.

„Ég leyfði mér að gera karakterinn svolítið mikið óþægilegan. Hún hefur lent í ýmsu og er mikið skemmd. Mér fannst mjög gaman að skrifa hana því hún glímir við svo margt. Mér finnst svo gaman að lesa um persónur sem hafa svolitla dýpt í sér og það er ekki bara allt gott. 

Því við erum náttúrulega öll þannig, við erum öll með alls konar í okkur, gott og slæmt, þannig að mér finnst gaman að gera karaktera þar sem það skín svolítið í gegn.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×