Oddur fæddist á Akureyri þann 29. október árið 1941. Þar ólst hann upp hjá afa sínum og ömmu, Páli Jónssyni og Stefaníu Einarsdóttur. Hann gekk í barna-og gagnfræðaskóla á Akureyri. Oddur hóf sjómennsku fimmtán ára gamall hjá Útgerðarfélagi Akureyringa.
Hann stundaði sjómennsku á sumrin með skóla og síðan alfarið eftir skólagöngu til ársins 1987. Árið 1990 flutti hann til Reykjavíkur og stundaði ýmis störf.
Árið 1995 hóf Oddur að skrá ættfræðiupplýsingar inn á tölvu. Hann hóf markvissa skráningu ættfræðiupplýsinga í ársbyrjun 1996 og stofnaði síðan ættfræðiþjónustuna ORG ehf. árið 1999. Hann kom á samvinnu um ættfræðirannsóknir við fjölda einstaklinga og stofnanir víða um land.
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, minnist Odds á Facebook síðu sinni. Hann deilir færslu Odds á Facebook frá því þegar hann heimsótti Odd árið 2020.
„Margir aðrir standa nær en ég til þess að lýsa því sem Oddur fékk áorkað fyrir ættfræðina - sem er elst hérlendra fræðigreina og undirstaða íslenskrar sagnaritunar. Ég minnist ákaflega skemmtilegs manns er gaman var að heimsækja – og sem hringdi í mig á öllum tímum sólarhringsins til þess að ræða ættfræði eða reka önnur erindi.“