„Mér fannst baráttan hjá okkur og hvernig allar stelpurnar komu tilbúnar til leiks standa upp úr. Við þurftum að jafna orkustigið þeirra sem við gerðum og svo var gott boltaflæði hjá okkur og mér fannst við setja tóninn í fyrsta leikhluta,“ sagði Sverrir Þór eftir leik.
Sverrir var afar ánægður með byrjun Keflavíkur í fyrsta leikhluta þar sem gestirnir gerðu tuttugu stig á fimm mínútum.
„Við byrjuðum vel og síðan hleyptum við þeim aldrei inn í leikinn. Þær þurftu að hafa mikið fyrir öllum körfum og það sem við lögðum upp með gekk mjög vel.“
Keflavík tapaði afar óvænt gegn Þór Akureyri sem er eina tap Keflavíkur á tímabilinu. Eftir það hefur liðið unnið afar sannfærandi sigra gegn Njarðvík og Stjörnunni.
„Maður hefur reynt að koma inn í hausinn á hópnum að við erum ekki að fara að vinna eitthvað af því við erum með svo marga landsliðsmenn eða hvað það nú er. Við þurfum alltaf að leggja alla vinnu í þetta og leggja okkur fram, spila sem lið og vera á sömu blaðsíðunni. Annars munum við lenda í vandræðum eins og á móti Þór.“
„Það er ekki séns á að vinna alla leiki sem maður fer í en hugarfarið verður að vera það gott að þetta verði eins og í síðustu tveimur leikjum,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson að lokum.