Erlent

Reyndi að kveikja í æsku­heimili Martin Luther King

Bjarki Sigurðsson skrifar
Æskuheimili Martin Luther King Jr. er friðað af yfirvöldum í Bandaríkjunum.
Æskuheimili Martin Luther King Jr. er friðað af yfirvöldum í Bandaríkjunum. AP/David Goldman

Kona var í dag handtekin eftir að hún reyndi að kveikja í æskuheimili jafnréttisleiðtogans Martin Luther King Jr. Gangandi vegfarendur náðu að stöðva konuna áður en hún náði að bera eld að eldsneyti sem hún hafði helt niður við húsið. 

King átti heima í húsinu fyrstu tólf ár lífs síns og er húsið friðað. Alla jafna er húsið opið fyrir vegfarendur að skoða en vegna framkvæmda hefur því verið haldið lokað síðustu mánuði. 

BBC segir að á myndbandi megi sjá konu í svörtum fötum hella eldsneytinu á veröndina og glugga heimilisins. Lögreglu var tilkynnt um konuna en þegar hún kom á staðinn voru fjórir vegfarendur búnir að stöðva konuna. 

Þeir höfðu séð hana vera að hella eldsneytinu, kasta eldsneytisbrúsanum frá sér og taka upp kveikjara sem lá á grasinu við hliðina á henni. 

Konan, sem er 26 ára gömul, var handtekin og gekkst undir geðmat. Hún gisti í fangaklefa í nótt og gæti verið ákærð fyrir athæfi sitt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×